140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

fjárframlög til veiða á ref og mink.

151. mál
[18:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Refurinn er einn af frumbyggjum landsins og hefur eðlilega rétt sem slíkur en allt frá landnámi hefur hins vegar verið leitað leiða til að halda stofninum innan skynsemismarka. Áætlað er að frá árinu 1980 til ársins 2007 hafi refum fjölgað úr 2.000 dýrum upp í 10.000 dýr og að þessi fjölgun hafi haldið áfram eftir árið 2007. Það er ágætt að þessi umræða fer fram því að ég er að vinna þingmál um refaveiðar almennt og hef verið að viða að mér ýmsum gögnum og upplýsingum þar að lútandi. Það er ótrúlegt hvað dýrbitið fé er að verða miklu algengara en var á árum áður og ótrúlega mikið um það allt í kringum landið.

Mér bárust líka ljósmyndir af ref með 28 þúfutittlingsunga í kjaftinum að bera í greni, 28 þúfutittlingsunga. (Forseti hringir.) Áætlað er að hvert greni þurfi um 60–80 kíló af kjöti til að koma upp afkvæmum og það er gríðarlega mikilvægt umhverfismál að þessum stofni sé (Forseti hringir.) haldið innan skynsemismarka.