140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staða íslenskrar kvikmyndagerðar.

[16:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir að taka málefni kvikmyndagerðar hér upp, sem er mjög mikilvæg atvinnugrein. Fyrir okkur sem viljum efla fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi er mikilvægt að hafa stjórnvöld sem vilja efla stuðning við innlenda kvikmyndagerð.

Í aðdraganda síðasta flokksþings framsóknarmanna tókum við þennan málaflokk sérstaklega fyrir. Í framhaldi af því komumst við að þeirri niðurstöðu að rétt væri að auka framlag til þessarar mikilvægu atvinnugreinar — hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 20 upp í 25% — vegna þess að eins og hér hefur komið fram skilar hver króna sem opinberir aðilar leggja í þessa atvinnugrein sér margfalt til baka. Þess vegna var það mér og mörgum öðrum ráðgáta þegar framlög til atvinnugreinarinnar voru skert og engin rök héldu í þeim efnum.

Nú er mikilvægt að horfa fram á við, horfa á þann glæsilega árangur sem okkar fólk í þessari atvinnugrein hefur náð á undangengnum mánuðum og árum. Við megum heldur ekki gleyma því hversu gríðarleg landkynning það er fyrir íslenska þjóð að státa af þessari atvinnugrein. Við höfum verið að ná miklum árangri eins og ég sagði hér áðan.

Það er því mikilvægt að við ráðumst ekki að rótinni sem er framtíðarsýn á uppbyggingu í málaflokknum. Þá er mikilvægt að stofnun eins og Kvikmyndaskólinn fái svigrúm til að „framleiða“ hæfileikaríkt fólk til að halda áfram þeirri sókn sem verið hefur í þessum málaflokki.

Mig langar líka, af því við framsóknarmenn tókum fyrir hugverkaiðnaðinn í umfjöllun okkar um atvinnumál, að nefna að fyrirtæki eins og Framestore, sem sér um eftirávinnslu á kvikmyndum sem er alltaf að verða stærri og stærri hluti í þessum iðnaði, hefur verið að gera stórkostlega hluti. Við þurfum að skoða starfsumhverfi fyrirtækja sem koma að þeim þætti kvikmyndagerðarinnar. Ég vildi ég hefði lengri tíma, en ég vona að við munum þvert á flokka fara að snúa okkur að því að efla þessa mikilvægu atvinnugrein.