140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fagna því að hæstv. ráðherra skuli koma hingað upp og það hryggir mig ekki að hæstv. ráðherra sé mér sammála um þetta efni. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan horfum við upp á það að opinberum störfum er að fækka mjög á landsbyggðinni. Hæstv. ráðherra situr nú í ríkisstjórn og rakti upp frægðarverk sín á fyrri árum þegar hann sat í ríkisstjórn, er búinn að sitja í ríkisstjórn í fimm ár en á þeim fimm árum hefur opinberum starfsmönnum fækkað mjög mikið vítt og breitt um landið, því miður. Ég rakti áðan til að mynda að í gamla kjördæminu í Norðurlandi vestra hefur fækkað um 60 opinber störf á síðustu þremur árum, í ekki stærra byggðarlagi. Ef þetta væri reiknað upp á höfuðborgarsvæðinu hlypi þetta á hundruðum eða þúsundum opinberra starfa.

Um leið og ég fagna því að við hæstv. utanríkisráðherra skulum vera sammála um eitthvert mál vil ég hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að fylgja þeim sjónarmiðum sínum eftir þannig að hann geti staðið eftir tíu ár og rifjað upp ríkisstjórnartíma sinn hinn síðari með sama hætti og hann rifjaði upp ríkisstjórnartíma sinn hinn fyrri, og geti þá státað af því að hafa flutt einhverjar stofnanir út á land, t.d. Vegagerðina.