140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:56]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við hv. þm. Pétur Blöndal séum samstiga í því hvernig við horfum á þetta mál. Ég hef ekki séð fyrir mér að það sé einhver skali í kosningu um stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni. Það finnst mér ekki koma til greina. Ég er algjörlega sammála honum í því. Ég átti ekki við það í svari mínu áðan, heldur að ekki sé hægt að svara slíku nema já eða nei. Í þeim efnum verða menn að gera upp við sig heildarmyndina af því frumvarpi sem er á borðinu versus gildandi stjórnarskrá í dag.

Um atriðin um einstaka þætti sem við vildum taka út úr eins og stöðu forseta, kirkju, kosningafyrirkomulag og önnur þau atriði sem við höfum margrætt hér í dag finnst mér alveg koma til greina að hafa víðari valkosti. Það getur verið spurning um útfærslu á því hvernig nákvæmlega þau atriði líta út, en eins og ég nefndi áðan finnst mér bara rétt að þeir aðilar sem eru færastir í þessum efnum gefi okkur ráð og vinni með okkur að útfærslu.

Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan, ég ætla ekki að útiloka það að við nýtum okkur tækifærið til að fara fram með ákveðnar skoðanakannanir þar til viðbótar. Mér finnst ófært að nýta ekki tækifærið sem kemur upp í hendurnar á okkur núna á sumri komanda með atkvæðagreiðslu þar sem 80% þjóðarinnar munu mæta í forsetakjör og við höfum tækifæri til að fá mælingu og viðhorfsmat þjóðarinnar á þessu stóra máli. (Gripið fram í.) Við eigum að nýta okkur það til að vita hver hugur þjóðarinnar er til þessara frumvarpsdraga sem liggja á borðinu. (PHB: Ég spurði að því hvað …)