140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur.

503. mál
[15:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Geirsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum því miður á ýmsan hátt eftirbátar annarra þjóða hvað varðar neytendarétt. Eitt dæmi þessa veikleika snýr að skilarétti á vörum og almennum réttindum og skyldum neytenda og söluaðila þegar ágreiningur kemur upp í þeim efnum. Þetta er viðfangsefni sem lengi hefur verið til umfjöllunar og er jafnframt eitt af þeim stærri verkefnum sem Neytendasamtökin þurfa að sinna í hagsmunagæslu sinni fyrir neytendur. Engin lög gilda hér á landi um skilarétt þegar neytandi er ósáttur við ógallaða vöru en fyrir rúmum áratug voru af hálfu viðskiptaráðuneytisins settar sérstakar skilareglur til að taka á þessum málum hvað varðar almennan skilarétt, inneignarnótur og gjafabréf.

Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt með skýrum hætti að hvorki neytendur né starfsmenn í verslunum þekkja til þessara reglna og fáar verslanir fara eftir þeim. Þetta er því miður staðreynd mála. Þó að reglurnar séu aðeins leiðbeinandi eiga þær að geta dregið verulega úr þeirri óvissu sem oft skapast milli söluaðila og kaupanda varðandi skilarétt. Meginatriði þessara reglna er meðal annars að neytandi á almennt 14 daga skilarétt á vöru, vörur með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil, inneignarnótur á að miða við upprunalegt verð vöru, gjafabréf gilda í fjögur ár frá útgáfudegi og hið sama á við um inneignarnótur og skilaréttur tekur ekki til útsöluvöru nema um annað hafi verið samið.

Þetta eru allt skýrar og afdráttarlausar reglur. Vandinn er sá að fæstir neytendur þekkja til þeirra og fáir kaupmenn fara eftir þeim. Sú staðreynd sýnir að eitthvað hefur farið úrskeiðis varðandi upplýsingamiðlun og kynningu. Á sínum tíma náðist gott samstarf milli allra hagsmunaaðila um að koma málum í betri farveg en raun varð á með því að setja umræddar reglur um skilarétt. Eftirfylgnin hefur hins vegar verið með þeim hætti að þær reglur hafa ekki komið að því gagni sem ætlast var til. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra:

Hafa þær verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur sem viðskiptaráðuneytið gaf út í desember árið 2000 fest sig í sessi og skilað þeim árangri sem stefnt var að?

Liggja fyrir upplýsingar um hversu stór hluti verslunar- og þjónustufyrirtækja virðir verklagsreglurnar? Liggur fyrir hve stór hluti neytenda þekkir til þeirra?

Eru uppi áætlanir af hálfu ráðuneytisins að gera skipulegt átak í því að kynna enn frekar fyrir neytendum og rekstraraðilum umræddar verklagsreglur til hagsbóta fyrir bæði neytendur og seljendur?