140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er sammála þeirri meginhugsun og meginmarkmiðum um hagræðingu og sameiningu stofnana sem felst í þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir en er þó ekki sannfærður um þá leið sem valin var. Einkum tel ég óheppilegt að ekki hafi verið unnið að málinu í samræmi við tillögu nefndar samgönguráðherra sem gerði ráð fyrir umfangsmeiri breytingum með sérstakri stofnun hafs og stranda en í því felst að Siglingastofnun, Landhelgisgæsla og Fiskistofa verði sameinaðar ásamt verkefnum Umhverfisstofnunar varðandi mengun hafs og stranda, ferjurekstri Vegagerðar, skiparekstri Hafrannsóknastofnunar og rekstri Vaktstöðvar siglinga. Þar með væri horft til hafsins alls frá sjónarhorni umhverfis- og náttúruverndar, lífríkis, siglingaöryggis o.s.frv.

Í ljósi yfirlýsinga formanns umhverfis- og samgöngunefndar um að málið verði skoðað milli umræðna kýs ég að sitja hjá við afgreiðslu þessara mála að sinni og bíð niðurstöðu nefndarinnar milli umræðna.