140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

samningamaður Íslands í makríldeilunni.

[11:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Út af frammíkalli hér í salnum og út af fyrri orðum hv. þingmanns um það hvort þetta tengist með einhverjum hætti samningum við Evrópusambandið þykir mér rétt að geta þess að þessi embættismaður gegnir meðal annars af minni hálfu mjög veigamiklu hlutverki í þeim samningaviðræðum, bara svo það komi skýrt fram af minni hálfu. (Gripið fram í.) Það sem um er að ræða er einfaldlega að ráðuneytið hefur einungis einn þjóðréttarfræðing. Verkefni sem tengjast slíkum sviðum hlaðast hins vegar upp vegna þess að þjóðréttarfræðingurinn hefur þurft að eyða um það bil þrefalt meira af tíma sínum en um var samið milli mín og þáverandi sjávarútvegsráðherra 2009. (Gripið fram í.) Hér er einungis um að ræða innri mál ráðuneytisins. Við þurfum hann til annarra verka sem tengjast skipulagsbreytingum í ráðuneyti okkar, m.a. til að sinna verkum sem haldið er fram af Alþingi Íslendinga að við séum allt of sein með. Það er meðal annars út af því.

Að því er varðar samningaformennsku er í báðum (Forseti hringir.) ráðuneytum að finna fólk sem hefur veitt slíkum samningum forustu. Í sjávarútvegsráðuneytinu er að finna mann sem hefur leitt til lykta flesta uppsjávarfiskasamningana sem við nú njótum þannig að það er ekki eins og einhver skortur sé á (Forseti hringir.) samningamönnum í þessum tveimur ráðuneytum samanlagt. (Gripið fram í.)