140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins um stöðu mála í þinginu og þá forgangsröðun sem við beitum á mál. Það er mjög mikilvægt að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og reyna að ná um það víðtækri sátt, en við erum að rífast um það í samfélaginu hvort sjávarútvegurinn eigi að borga 5, 15 eða 20 milljarða í veiðileyfagjald.

Á sama tíma heyrum við ítrekað yfirlýsingar frá fulltrúum Íslandsstofu um mikla eftirspurn hjá erlendum fyrirtækjum með fjölbreytta starfsemi að koma til landsins, fjárfesta hér og byggja upp atvinnurekstur. Þeir geta hins vegar ekki gefið svör vegna þess að þeir geta meðal annars ekki svarað því hvenær hægt er að fá orku fyrir slíka starfsemi.

Við höfum skýrslu um samræmda orkustefnu sem var lögð fram í þinginu og rædd í febrúar, ef ég man rétt, og við höfum framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar frá síðasta ári. Það sem er sameiginlegt með þessum skýrslum er að þær segja okkur að ef við förum í trúverðuga stefnu, nýtum þá virkjunarkosti sem eru í nýtingarflokki samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, megi reikna með því að þegar komið verður til áranna 2025–2030 á þeirri framkvæmdaáætlun muni þessi iðnaður, þ.e. raforkuframleiðslan, skila allt að 200 milljörðum á ári inn í íslenskt þjóðarbú.

Hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir sagði í þinginu að niðurstöður hennar og hæstv. iðnaðarráðherra í rammaáætlun mundu tefja þessar framkvæmdir um fjögur ár. Við getum sett þetta í samhengi við allt annað, á fjórum árum erum við að tala um 800 milljarða ef við viljum nota þá tölu sem kemur fram í þessum skýrslum.

Við getum öll gert okkur grein fyrir því, virðulegi forseti, hvaða áhrif það hefði á íslenskt samfélag, trúverðugleika þess og traust á erlendum vettvangi, t.d. lánshæfismat, ef við settum fram (Forseti hringir.) trúverðuga stefnu til einhverra ára um það hvernig við ætluðum að nýta þessar orkuauðlindir. Allt þetta setur ríkisstjórnin á ís (Forseti hringir.) og ræðir algjör smámál í samanburði við þetta mesta hagsmunamál þjóðarinnar.