140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ef við förum ekki þá leið sem ég hef verið að berjast fyrir, og hv. þingmaður tók undir á sínum tíma einmitt út frá stöðu gjaldmiðilsins eins og ég skildi hana þá, í júní 2009, munum við hafa gjaldeyrishöft hér miklu lengur en tvö til þrjú ár, miklu lengur. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé — ég er ekki að útiloka að til séu aðrar leiðir en ég held að þetta sé langbesta leiðin, þ.e. að ganga í Evrópusambandið og að lokum taka upp evruna til að afnema gjaldeyrishöftin og ná samningum um samstarf um að bræða þessa snjóhengju, eins og ég kallaði það.

Hv. þingmaður beindi til mín þeirri handtæku spurningu hvort þetta þýddi að verið væri að leggja til að við tækjum gjaldeyrislán upp á þúsund milljarða til að borga þeim sem eiga snjóhengjuna. Um það segi ég bara: Það er samningahópur að vinna fyrir okkur, við erum að fara í samninga um þetta en ég er einungis að segja að við þurfum og eigum kost á því í gegnum samningaviðræðuna að freista samstarfs um að leysa þennan vanda.