140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru auðvitað vangaveltur hjá mér og hv. þingmanni. Þetta er mjög einkennileg staða.

Ég er með aðra spurningu, frú forseti, til hv. þingmanns sem varðar lýðræðisgrundvöll þessarar tillögu. Ég vil spyrja hvort hv. þingmanni finnist það lýðræðislegt að stöðva samningaferli, sem Alþingi samþykkti fyrir tæpum þremur árum að setja í gang, án þess að upplýsingar um grundvallarhagsmuni sem samningurinn kann að bera í sér séu á borð bornar fyrir þjóðina. (Gripið fram í.)

Þó að ég sé ESB-sinni vil ég nálgast þetta út frá sjónarhorni lýðræðisins. Það er beinlínis andlýðræðislegt að reyna að koma í veg fyrir að kjósendur á Íslandi fái að vega og meta hvernig (Forseti hringir.) þeir telji hagsmunum Íslendinga best varið til framtíðar.