140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að drepa niður fæti í inngangi hæstv. utanríkisráðherra að skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að í gegnum samninga við Evrópusambandið sé hægt að stinga leið fyrir Ísland út úr höftum og inn í nýjan gjaldmiðil sem gæti skapað fjölmörgum heimilum og fyrirtækjum tryggari framtíð.“

Svo segir utanríkisráðherra:

„Staðreyndin er hins vegar sú, að fáum mánuðum eftir formlega aðild getur Ísland komið krónunni í skjól fram að upptöku evrunnar, með því að taka þátt í gjaldmiðilssamstarfinu ERM II með stuðningi Seðlabanka Evrópu. Um þetta þarf hins vegar að semja og þessvegna er nú nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að halda viðræðunum við Evrópusambandið áfram af fullum þrótti. Í því felast langtímahagsmunir Íslands.“

Það er fyrir mitt leyti brýnasta verkefnið sem íslenskir stjórnmálamenn geta staðið frammi fyrir um þessar mundir, þ.e. að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið einmitt vegna þeirra álitaefna sem utanríkisráðherra tæpir þarna á. Saga peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi er þyrnum stráð allt frá upphafi. Frá því íslenska krónan var skilin frá þeirri dönsku á pari árið 1920 hefur verðmæti hennar rýrnað sem næst því stöðugt. Gengi íslensku krónunnar hefur lækkað um 99,95% gagnvart dönsku krónunni á tímabilinu 1920–2009. Á þessu langa tímabili hefur verið rekin peninga- og gengisstefna af ýmsu tagi, en lengst af innan ramma heftra utanríkis- og fjármagnsviðskipta. Öllum þessum tilraunum til missjálfstæðrar peningastefnu hefur lokið með rýrnun kaupmáttar krónunnar, hvort heldur horft er til innra virðis hennar gagnvart vöru eða þjónustu eða ytra virðist gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Það hefur um langt skeið verið öllum ljóst að íslenska krónan ógnar efnahagslegu sjálfstæði landsmanna. Opin hagkerfi með lítinn gjaldmiðil er auðveldur skotspónn erlendra og innlendra spákaupmanna. Á árunum eftir aldamót var krónan lengst af of hátt skráð og vann þannig gegn hagsmunum útflutningsgreina sem veiktust og þurftu að skuldsetja sig. En nú er hún of lágt skráð svo að ungt fólk á erfitt með að sækja nám erlendis og erlend lyf og matvæli hafa tvöfaldast í verði. Laun á Íslandi eru nú svo lág í alþjóðlegum samanburði að margt ungt fólk íhugar að flytja úr landi. Stöðugt efnahagsumhverfi er forsenda þess að þjóðin geti byggt upp atvinnulíf sem getur selt verðmætar vörur og þjónustu úr landi. Og sveiflur í mynt ógna bæði fyrirtækjum og einstaklingum.

Sumir þingmenn telja að með töfralausnum sé hægt að koma í veg fyrir verðbólgu og afnema verðtryggingu, en mér fannst því sjónarmiði ágætlega svarað í nýlegum pistli Jóns Steinssonar hagfræðings þar sem hann fjallar um mikilvægi þess að Seðlabankinn hækki vexti til að halda aftur af verðbólgu. Jón segir, með leyfi forseta:

„Talsmenn þess að við höldum í krónuna segja að það þurfi „bara“ agaðri hagstjórn í framtíð en í fortíð. Sannleikurinn er sá að það er enginn stuðningur á Íslandi fyrir agaðri hagstjórn þegar kemur að peningamálum.“

Jón tekur sem dæmi viðbrögð forráðamanna í íslenskum stjórnmálum er kemur að eina tæki Seðlabankans til að halda aftur af verðbólgunni, það er að hækka vexti.

Svo heldur Jón áfram:

„Ef við getum ekki haldið aftur af verðbólgu þegar hagkerfið er verndað á bak við gjaldeyrishöft og atvinnuleysi er 6%, er borin von að við getum rekið okkar eigin gjaldmiðil með góðum árangri í opnu hagkerfi.“

Hagstjórnarumbætur eru nauðsynlegar og að þeim er verið að vinna, en íslenskir stjórnmálamenn geta hins vegar ekki varið skuldir heimilanna gegn sveiflum á verði olíu nema með upptöku annarrar myntar. Verðbólga og verðtrygging verða alltaf fylgifiskar krónunnar nema við viljum hverfa aftur til haftastefnu fortíðar eða eiga á hættu að sparnaður hverfi. Upptaka annarrar myntar er því eina raunhæfa leiðin til að losna undan verðtryggingu og afleiðingum hennar eins og t.d. við sjáum svo vel í tengslum olíuverðs við skuldir íslenskra heimila. Staðreyndirnar tala þannig skýru máli.

Gengisfellingar gátu á sínum tíma vissulega leyst tiltekin vandamál. Þær rýrðu kjör almennings og lækkuðu skuldir útflutningsgreina í lokuðu hagkerfi en krónan var hins vegar lykilástæða fyrir vanda okkar í aðdraganda hrunsins og gengislækkun hennar í hruninu hefur búið til alvarlegasta efnahagsvanda þjóðarinnar, þ.e. skuldavanda heimilanna. Úrlausn á ofskuldsetningu atvinnulífs og heimila er stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir og stafar af því að þorri skulda er annaðhvort tengdur verðbólgu eða gengi. Þessar staðreyndir benda til þess að gjaldmiðillinn sé einmitt frekar hluti af vandanum en forsenda lausnarinnar.

Láglaunastefna af þessu tagi sem hefur tíðkast hér er þó í góðu samræmi við kjarnaröksemd þeirra sem eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Og þeir telja meira að segja svo að allir sannir Íslendingar eigi að taka undir með þeim í þeim háværa margradda kór, eins og einhvers staðar var skrifað, að sveigjanleiki krónunnar sé hagstæður. Sveigjanleiki krónunnar gerir ekkert annað en að tryggja samkeppnisstöðu landsins með rýrnun lífskjara í gegnum gengislækkanir.

Ljóst er, virðulegi forseti, að við inngöngu í ERM II lýsir viðkomandi land því yfir að það festi gengi gjaldmiðils síns við evru á ákveðnu föstu gengi. Þó er möguleiki á því að breyta því gengi ef samkomulag næst um það milli viðkomandi ríkis og Seðlabanka Evrópu. Ef þjóðin tekur þá ákvörðun að ganga í Evrópusambandið getur hún strax gengið inn í þetta evrópska gjaldmiðlasamstarf ERM II sem er hugsað þannig að það auðveldi nýjum aðildarríkjum að taka upp evru án þess að það raski evrópska myntsamstarfinu um of, jafnframt því sem viðkomandi land nái að aðlagast fyrirkomulagi fast gengis — svo ég vitni til Gylfa Zoëga í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál árið 2010. Hann segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Ef Ísland gengi í ESB er ekkert sem hindrar það að ganga strax í ERM II og það mundi í raun þýða að landið þyrfti að fylgja fastgengisstefnu gagnvart evrunni.“

Þar með mundi krónan komast í skjól.

Virðulegi forseti. Með því að taka upp aðra mynt er lagður grunnur að fjölbreyttu atvinnulífi hér á landi til lengri tíma litið. Gjaldeyrismál yrðu ekki sama hindrunin í íslenskum fyrirtækjarekstri og áður, því síður er líklegt að félög í öðrum geirum en þeim staðbundnu mundu flýja land. Fyrirkomulagið mundi þannig efla fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og skjóta fleiri stoðum undir vöxt hagkerfisins til lengri tíma. Að auki mundi breytt fyrirkomulag gjaldeyrismála greiða fyrir fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi til bóta fyrir efnahagslífið.

Ljóst er að með upptöku annarrar myntar mundu líkurnar aukast á fjölbreyttu atvinnulífi til viðbótar við gömlu grunnstoðirnar sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda. Þar með aukast möguleikar til sköpunar nýrra starfa fyrir Íslendinga og vaxtarmöguleikar hagkerfisins margfaldast. Að taka upp aðra mynt í sátt við alþjóðasamfélagið er þannig til þess fallið að stuðla að bættum lífskjörum sem hlýtur að vera höfuðmarkmið allra stjórnmálamanna sama í hvaða flokki þeir standa.

Að mínu mati er innganga í Evrópusambandið forsenda hraðrar endurreisnar í íslensku efnahagslífi og valið sem Íslendingar standa í raun frammi fyrir er: Tökum við þátt í samstarfi Evrópuríkjanna innan ESB eða ætlum við að festast hér í kerfi gjaldeyrishafta og óstöðugleika hinnar íslensku krónu?

Í raun má segja að á hverjum degi stöndum við á krossgötum. Ætlum við að stíga skrefið til fulls og eiga virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi þeirra ríkja sem við eigum hvað mesta samleið með eða ætlum við að sætta okkur við lokað hagkerfi, lakari lífskjör og hægari og brokkgengari uppbyggingu á allan máta?

Ljóst er að það er mikill efnahagslegur ávinningur fyrir heimilin af Evrópusambandsaðild, lægri vextir, lægra vöruverð og tryggari atvinnuuppbyggingu. Efnahagslegur ávinningur fyrirtækjanna felst í sterkari tengslum við alþjóðlega afurða- og aðfangamarkaði, stöðugan gjaldmiðil, lægri viðskiptakostnað, lægri fjármagnskostnað o.s.frv.

Það má spyrja: Er von til þess að stöðugleiki skapist í fyrirsjáanlegri framtíð á grundvelli íslenskrar krónu? Það er ljóst að ekki verður unnt að láta krónuna fljóta aftur án einhvers konar hafta eða stýringar, t.d. með því að banna erlenda lántöku einstaklinga eða lögaðila. Ljóst er að slík höft og bönn hafa með sér kostnað sem birtist meðal annars í hærri vöxtum og áhættuálagi. Og vitna ég hér til orða Vilhjálms Þorsteinssonar í séráliti hans í verðtryggingarnefnd sem var undir stjórn hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Vilhjálmur segir enn fremur, með leyfi forseta:

„En jafnvel þótt krónan verði ekki að fullu fljótandi á ný, er tilvistarforsenda og réttlæting hennar einkum sú að unnt sé að láta gengi hennar endurspegla viðskiptakjör landsins hverju sinni. Þannig sé gengið notað til að jafna sveiflur í utanríkisviðskiptum, með veikingu til að efla innlenda framleiðslu og draga úr innflutningi þegar illa árar, en styrkingu með öfugum afleiðingum þegar vel gengur. Í þessari forsendu liggur að krónan muni áfram sveiflast með hinu smáa íslenska hagkerfi, aflabrögðum, fiskverði, álverði og svo framvegis. Það þýðir þá jafnframt að gengi og verðbólga — sem ræðst að talsverðu leyti af innflutningsverðlagi — verða áfram sveiflukennd.“

Vilhjálmur Þorsteinsson heldur áfram og segir:

„Það er álit undirritaðs að verðtryggingin sé, eins og áður segir, afleiðing og herkostnaður þeirrar hagstjórnar sem viðhöfð hefur verið lengst af á fullveldistímanum. Sú hagstjórn hefur mótast af því að leyfa gjaldmiðlinum að falla til að bregðast við ytri sveiflum og í samræmi við viðtekna forgangsröðun í stjórnmála-, efnahags- og atvinnustefnu.“

Vilhjálmur segir svo:

„Undirritaður álítur að raunhæfasta og fljótlegasta leiðin til að ná flestum þeim markmiðum sem að ofan eru talin, og stuðla að afnámi verðtryggingar, sé sú að stefna að upptöku evru eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.“

Undir það vill sá sem hér stendur taka, enda er ég að leiða rök að því að það óskynsamlegasta sem við getum nokkurn tímann gert fyrir íslensk heimili eða fyrirtæki sé að draga til baka þá aðildarumsókn sem er nú í ferli. Mitt mat er það að stjórnmálamenn eiga að takast á við málefni líðandi stundar sem og að marka stefnu til framtíðar. Ég segi: Sjaldan er meiri þörf á skýrri framtíðarsýn en einmitt þegar við göngum í gegnum erfiðleika eins og nú.

Langtímamarkmið okkar allra er að hér verði mögulegt að búa áfram. Það er hlutverk stjórnmálamanna að skapa skilyrði og umhverfi til þess að svo megi verða. Stærsta álitaefni í því er líklega það hvort almenningur á Íslandi fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína eða viljum við áfram búa almenningi þann veruleika að hér séu tvær myntir í landinu; launakrónan í launaumslaginu og verðtryggða krónan í gluggaumslaginu?

Það var sveiflan á milli þessara tveggja mynta sem orsakaði eignatjón almennings haustið 2008. Ef við ráðumst ekki að rót þessa vanda er ekkert því til fyrirstöðu að við bjóðum börnum okkar upp á sama óréttlætið eftir 10–15 ár eins og við höfum nú upplifað á undangengnum árum.

Stærstur hluti erfiðleika íslenskra fyrirtækja og heimila snýst ekki um hrun bankakerfisins heldur miklu fremur um sveiflur í gengi erlendra mynta við launakrónu og verðtryggða krónu. Ríkið tók á sig mikið högg vegna hruns bankanna en tókst með neyðarlögum að minnka það tjón og senda reikninginn að einhverju leyti til erlendra kröfuhafa. Tjón almennings er hins vegar miklu fremur tengt gengi krónunnar og því verðbólguskoti sem var því samfara. Þannig hittir hrun launakrónunnar íslensk heimili miklu verr en bankahrunið.

Íslendingar upplifa þannig bæði banka- og myntkreppu þegar önnur lönd glíma bara við bankakreppu. Það er mitt mat, virðulegi forseti, að stjórnmálamenn eigi að skapa skilyrði og umhverfi til að fólk vilji búa hér áfram og til að fyrirtæki vilji hafa höfuðstöðvar sínar á Íslandi. Sumir stjórnmálamenn hafa lagt á það áherslu að framtíð íslenskra neytenda, íslenskra skuldara og íslenskra launamanna sé best borgið í landi þar sem unnið er í myntsamstarfi við vinaþjóðir í Evrópu. Aðrir stjórnmálamenn hafa ekki lagt fram neina framtíðarsýn í þessum efnum.

Ég tel að kominn sé tími til að almenningur standi með sjálfum sér og krefjist breytinga. Íslenskur almenningur á skilið að laun og skuldir séu í sömu mynt. Íslenskur almenningur á það skilið að vita hvernig aðildarsamningur við Evrópusambandið lítur út. Hann á skilið að vita með hvaða hætti hann getur losnað undan oki íslenskrar krónu, oki verðtryggingarinnar, oki hárra vaxta og mikils fjármagnskostnaðar, bæði fyrir heimili og fyrirtæki. Íslenskur almenningur á skilið að taka afstöðu til aðildarsamnings sem er fulllokið, er tilbúinn, vegna þess að að mínu mati getur þjóðin ekki tekið upplýsta ákvörðun um hvort aðild að Evrópusambandinu sé henni hentug, hvort hún sé skynsamleg, nema fyrir liggi fullbúinn samningur þar sem tekið er á öllum þeim helstu álitamálum sem við höfum velt fyrir okkur hér í þessum sal, sem er staða sjávarútvegsins, staða byggðanna, staða landbúnaðarins og eins og hæstv. utanríkisráðherra fór í gegnum í inngangi sínum að þeirri skýrslu sem hér er til umræðu, staða gjaldmiðlamálanna. Hvernig getum við losnað við hina íslensku krónu? Með því að ganga inn í Evrópusambandið. Með hvaða hætti getum við losað þúsund milljarða snjóhengju sem hér varð til vegna þess að Seðlabankinn hækkaði vexti til að vinna á verðbólgunni sem þá geisaði? Hvernig losnum við undan höftum og sköpum íslenskum fyrirtækjum aðbúnað til þess að vaxa og dafna í hinu íslenska hagkerfi? Hvernig ætlum við að svara öllum þessum spurningum? Við getum ekki svarað þeim með fullnægjandi hætti fyrr en við höfum fyrir framan okkur samning sem þjóðin getur tekið afstöðu til með upplýstum hætti eftir ítarlega umræðu hér í þessum sal og ekki síður meðal þjóðarinnar allrar.