140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er allt rétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir segir hér, í þessu máli og reyndar fleiri málum er ekki komið hreint fram. Það er eitt sagt en eitthvað annað virðist búa að baki. Það er eitthvað sem býr að baki, í þessu tilviki Evrópusambandsaðildin sem hefur ótvíræð og skjalfest tengsl við þetta mál þó að því sé ítrekað neitað í sölum þingsins.

Það er ekki eina vandamálið við þessa þingsályktunartillögu, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur raunar áður bent á í þessum umræðum. Vandamálin eru meðal annars fólgin í því að breytingarnar eru að sumu leyti algjörlega óútfærðar. Þá er ég að hugsa til verkaskiptingar milli væntanlegs atvinnuvegaráðuneytis og væntanlegs umhverfis- og auðlindaráðuneytis þar mönnum hefur ekki enn þá tekist, þrátt fyrir að það sé búið að vera á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar í þrjú ár, að koma sér saman um einhverja niðurstöðu, einhverja línu um það hvernig verkaskiptingin á að vera milli þessara ráðuneyta.

Það er enn þá í óvissu, að því er sagt er, þegar spurt er eftir því í þingsal og í þingnefnd hver verkaskiptingin eigi að vera milli atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis í sambandi við auðlindanýtingu. Þá er sagt að verði farið í þá vinnu eftir að þessi þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt. Þrátt fyrir þriggja ára aðlögunartíma eða undirbúningstíma hefur mönnum ekki tekist að komast að niðurstöðu um þetta, nema verið sé að leyna þingið því hvernig þetta á að vera í raun og veru. Það eru tveir kostir. Annaðhvort hafa menn vanrækt heimavinnuna sína áður en tillagan var lögð fram eða menn leyna því hver raunverulegur ásetningur þeirra er. Það er annað hvort. Hins vegar er hent inn í þingið tillögu um sameiningu fjármálaráðuneytis og (Forseti hringir.) efnahagsmálaráðuneytis án þess að málið hafi fengið ítarlega skoðun nema hjá þriggja manna nefnd í þrjár vikur.