140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Rétt í byrjun, það er allt að því hjákátlegt að heyra suma hv. samfylkingarþingmenn tala um lýðræðislegan rétt stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðuþingmanna að ræða um þau mál sem eru á dagskrá þingsins og tala síðan um að auka þurfi beint lýðræði. Beint lýðræði, gott og vel. En þegar nákvæmlega sömu þingmenn hafa fengið til þess tækifæri eftir tækifæri í þingsal í vetur með því að ýta á græna takkann, hafa þeir alltaf brugðist þannig við að rauði takkinn hefur orðið fyrir valinu, (Gripið fram í: Rétt.) t.d. í Icesave-málinu, meira að segja í tvígang. Og þegar við sjálfstæðismenn lögðum til að byrja umsóknarferlið að aðildarsambandinu við ESB með þjóðinni sögðu þessir sömu þingmenn: Nei og aftur nei, þjóðinni kemur þetta ekki við. Ég tala nú ekki um í því stórmáli sem ég nefndi áðan, Icesave-málinu.

Ég kom hingað fyrst og fremst upp með jafnréttismálin í huga. Ég sé að hv. formaður velferðarnefndar, Álfheiður Ingadóttir er ekki í salnum en í mestri vinsemd vil ég hvetja nefndina til að fara af fullri alvöru yfir hvernig hallað hefur á jafnréttismálin á síðustu missirum. Þá er ég að vísa til kannana sem ítrekað hafa sýnt fram á að kynbundinn launamunur, ekki síst hjá hinu opinbera, er að aukast. Þetta er á ábyrgð okkar allra og þetta er eitthvað sem við verðum að taka mjög alvarlega til lengri tíma litið.

Það sama gildir um fæðingarorlofið. Við höfum mörg hver, bæði í stjórnarandstöðunni og stjórnarmeirihlutanum, talað um mikilvægi þess að fæðingarorlofið haldi gildi sínu. Sú umræða hefur algerlega koðnað niður og á meðan eru feður í auknum mæli að hætta að taka fæðingarorlof. Þetta þýðir slag og áfall fyrir jafnréttisbaráttuna til lengri tíma litið, bæði fyrir konur á vinnumarkaði en líka fyrir karla. Við þetta verður ekki unað og þess vegna vil ég hvetja nefndarmenn í velferðarnefnd að taka þessi mál til umræðu og beina síðan umræðunni hingað í þann farveg (Forseti hringir.) að við getum rætt um það í þingsal þannig að skilaboð alls Alþingis, ekki bara stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu, verði skýr: (Forseti hringir.) Við viljum auka og efla jafnrétti í reynd.