140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og svo oft áður ræða menn eitt og annað undir þessum lið. Hér hefur verið fjallað um afnám gjaldeyrishafta, sem ég tek undir að er afar nauðsynlegt, og hér hefur verið rætt um jafnréttismál.

Nú ætla ég aðeins að fjalla um þessi mál saman vegna þess að undir þessari umræðu kom mér í hug saga sem ég heyrði nýverið og lýsir því að jafnréttisbaráttan á að vera hér í fullu fjöri. Það var nefnilega þannig að eldri kona í Vestmannaeyjum hafði hugsað sér að fara til Spánar í ferðalag. Hún fór í bankann og ætlaði að kaupa sér gjaldeyri, framvísaði farseðli og öllu því sem þarf til samkvæmt lögum um gjaldeyrishöft, en þá var henni tilkynnt það í bankanum að hún gæti ekki fengið gjaldeyri vegna þess að hún væri ekki með launareikning. Konan útskýrði fyrir bankastarfsmanninum að hún hefði einfaldlega verið heimavinnandi og séð um börnin og heimilið og það væri jú rétt að hún væri ekki með launareikning en væri ekki hægt að fara eitthvað í kringum það og laga þetta, hún væri með pening sem hún ætlaði að kaupa gjaldeyrinn fyrir. Nei. Síðan var þetta mál skoðað betur. Á endanum var samþykkt að athuga málið ef hún gæti sýnt fram á að hún hefði aðgang að launareikningi eiginmanns síns.

Þetta finnst mér mjög sorglegt árið 2012. Það er sorglegt að við skulum búa við gjaldeyrishöft, og við eigum að einhenda okkur í að afnema þau, en þessu litla atriði held ég að við verðum að ráða bót á strax. Það er skömm að því að verið sé að mismuna fólki eftir því hvort það hafi launareikning eða ekki. Við vitum á hverjum það bitnar; það bitnar á konum og það bitnar á eldri konum. Þetta er eitt af því sem við verðum að laga.