140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað kallar þessi spurning á alls konar aðrar vangaveltur í þeim dúr sem hv. þingmaður fór út í. Ég vakti líka athygli á því að margar aðrar spurningar eru uppi þegar við veltum fyrir okkur kjördæmaskipan, kosningafyrirkomulagi og öðru þess háttar.

Við sjáum til dæmis afleiðingarnar af því fyrirkomulagi sem haft var við kjör á stjórnlagaþinginu þó að það kjör hafi síðan verið gert ógilt. Það var að mínu mati mjög eitruð blanda. Það var persónubundið kjör og landið eitt kjördæmi. Niðurstaðan varð sú, eins og allir sáu, að það var tæplega nokkur einasti maður fyrir utan höfuðborgarsvæðið sem náði kjöri.

Það eru svona hlutir, meðal annars reynslan af þessum kosningum, sem ættu meðal annars að vera vegvísir fyrir okkur, hefðu átt að hringja viðvörunarbjöllum þegar við ræðum hvort þetta fyrirkomulag sé skynsamlegt. Ég spyr hvort við þyrftum ekki líka að velta fyrir okkur öðrum þáttum, eins og hv. þingmaður nefndi, jöfnun lífskjara milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og þeim spurningum sem ég velti upp varðandi skipan meiri hluta ríkisstjórna og samband þingmanna og kjósenda.