140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að þeirri spurningu hvaða gildi þetta mál hefur fyrir núverandi ríkisstjórn finnst mér það nokkuð markast af því hvernig staðið hefur verið að öllum undirbúningi þess. Ég verð að segja eins og er að við hljótum að gera kröfu til ríkisstjórnarmeirihlutans á þingi að öll þau verk sem unnin eru og snúa að breytingum á stjórnarskránni séu unnin af aga, festu og nákvæmni og litið sé til allra þeirra þátta sem mögulega geta komið upp hvað þessa hluti varðar og þeir séu unnir í samstarfi og samvinnu til að ekki verði rofin sú þjóðfélagssátt sem stjórnarskráin hvílir á.

Ég hef tekið eftir því í þeirri umræðu sem hefur farið fram um umræðuna á þinginu — maður skoðar hvað er verið að tala um í fjölmiðlum — þá beinist öll athyglin að þeim tíma sem umræðan tekur á þingi. Það er furðulegt að fylgjast með því í ljósi þess máls sem hér er verið að ræða. Ég efast um að víða sé það svo, í það minnsta ekki á Vesturlöndum, að mönnum þyki nauðsyn að keyra í gegnum þjóðþing breytingar á stjórnarskrá og geri athugasemdir við það að þingmenn tjái sig um þær breytingar.

Ég hef ekki lokið yfirferð minni yfir þær spurningar og þau hugtök sem um er að ræða. Ég á ýmislegt ósagt og vil fá að geta sagt það hér þannig að mín sjónarmið hafi komið fram. Til þess var ég kosinn á þing. (Forseti hringir.) Ég verð að segja að óþolinmæði þeirra sem vilja að Alþingi hætti að ræða þetta ber þess vott, hvort sem menn eru hv. þingmenn eða aðrir, að ekki er mikil virðing borin fyrir stjórnarskránni þegar menn tala þannig.