140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðuna. Ég tek undir þetta í upphafi ræðunnar þegar hann fór yfir hvað það var dræm kosningaþátttaka í stjórnlagaþingskosningunni. Þetta var sögulegt lágmark í þessu gamla lýðræðisríki að það voru rétt rúm 30% atkvæðisbærra manna sem mættu á kjörstað. Svo fór hann yfir það að dreifnin var svo mikil á atkvæðum því að það voru 525 einstaklingar í framboði. Dreifnin var svo mikil að þeir sem hlutu efstu sætin voru með ótrúlega lítið fylgi á bak við sig. Það er sérstaklega skrýtið að hugsa til þess að þingmenn og Alþingi varð fyrir hótunum frá þessu fólki í þá átt að ef við mundum ekki taka þær tillögur sem var skilað til þingsins og gera þær að okkar mundu þessir sömu aðilar fara í framboð til Alþingis. Ég sagði alltaf gott og vel, maður lætur ekki svona hótanir hafa áhrif á sig. En það gerðist eitthvað þarna, virðist vera, og það virðist hafa hlaupið út svo mikil heift á milli stjórnlagaráðsfulltrúanna og stjórnvalda og síðan Hæstaréttar því að Hæstiréttur úrskurðaði kosningarnar ógildar, eins og við munum. Var ég búin að vara við því löngu áður en Hæstiréttur úrskurðaði það og hafði skrifað blaðagreinar og annað vegna þess að lögin voru flækt svo mikið.

Varðandi 26. gr. sem þingmaðurinn nefndi þá hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verið lengi saman í ríkisstjórn og borið gæfu til þess að fara fram með stjórnarskrárbreytingar í sátt eins og þegar mannréttindakaflinn var settur inn í stjórnarskrána 1995. Það voru nánast komin drög að breytingartillögum fyrir þarsíðustu kosningar undir forustu Jóns Kristjánssonar framsóknarmanns en þá var það Samfylkingin sem stoppaði það og ekki var farið af stað með það vegna þess að ekki var meiri hluti fyrir því á þinginu.

Hvað finnst þingmanninum um þá ósátt sem þetta mál er nú komið í?