140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Í þessum umræðum hafa menn komið víða við enda er málið efnismikið og fylgir sá böggull skammrifi þegar hver ræða er jafnstutt og raun ber vitni að málflutningur manna verður svolítið sundurslitinn en við það verður að una. Ég mun að þessu sinni fyrst og fremst einbeita mér að einu tilteknu álitaefni í sambandi við þetta mál. Ég ætla þó að geta þess í upphafi að mér fannst hv. þm. Baldur Þórhallsson ganga býsna langt í fullyrðingum sínum áðan um ráðgjöf hæfustu sérfræðinga og annað þess háttar. Mér var kunnugt um að meiri hlutinn í nefndinni bar spurningar undir að minnsta kosti einn sérfræðing, kannski fleiri, í félagsvísindadeild háskólans en mér fannst hv. þm. Baldur Þórhallsson varpa allt of mikilli ábyrgð í þá átt og ummæli hans ekki endurspegla það hvernig spurningarnar urðu til. Mér fannst hann ganga býsna langt í fullyrðingum sínum í þeim efnum og held að þær standist ekki alveg ef grannt er skoðað.

Það álitamál sem ég ætlaði hins vegar að geta um sérstaklega hefur ákveðna skírskotun til umræðu sem átt hefur sér stað í dag og varðar hugsanlega aðild okkar að Evrópusambandinu. Um það vil ég fyrst segja að allir sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar eru sammála um að Ísland verður ekki aðili að Evrópusambandinu að óbreyttri stjórnarskrá. Það er nokkuð óumdeilt meðal fræðimanna sem um þau mál hafa ritað þannig að eigi Ísland að ganga í Evrópusambandið verður að breyta stjórnarskránni áður en aðildin tekur gildi.

Í tillögum stjórnlagaráðs sem liggja til grundvallar umræðunni að nokkru leyti með óbeinum hætti, því að við erum auðvitað ekki að fjalla efnislega um tillögur stjórnlagaráðs heldur um tiltekna aðferð við að efna til skoðana- eða spurningakönnunar um þær tillögur, er inni ákvæði sem vísar til heimildar til að framselja ríkisvald að tilteknum skilyrðum uppfylltum til alþjóðlegra stofnana. Ég kom inn á það einhvern tíma fyrr í umræðunni að þarna getur nákvæmt orðalag skipt mjög miklu máli. Er orðalagið svo rúmt að það geti um framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana, að það geti innifalið aðild að Evrópusambandinu? Það er líka hægt að orða það þröngt þannig að það geti innifalið að bæta við tilteknum atriðum sem varða EES-samninginn sem fela þá í sér eitthvað sem við getum kallað minni háttar framsal ríkisvalds á takmörkuðu sviði eins og til dæmis álitamál sem við höfum staðið frammi fyrir á undanförnum árum svo sem í sambandi við breytingu á samkeppnislögum 2005 og lögum um flugmál í fyrra, að hægt sé að selja takmarkað ríkisvald á einhverju vel skilgreindu afmörkuðu sviði til alþjóðlegra stofnana. Orðalag ákvæðis af þessu tagi skiptir því höfuðmáli. Deila má um hvort orðalagið í tillögu stjórnlagaráðs er nægilega skýrt til að kveða með skýrum hætti á um greinarmuninn á því, þ.e. ekki er alveg ljóst hvort orðalagið í tillögu stjórnlagaráðs mundi innifela heimild til að við gengjum í Evrópusambandið. En ég kemst ekki lengra í þeim vangaveltum.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að ég og hv. þm. Ólöf Nordal leggjum fram ákveðna tillögu í þessu máli, það er ein af varatillögum okkar í málinu því að eins og mönnum er kunnugt um leggjumst við gegn því að þetta mál nái fram að ganga, en nái það fram að ganga leggjum við áherslu á að spurt verði um fullveldisframsal í þessari spurningakönnun. Við teljum að gagnlegt sé að fá vísbendingu um það, verði á annað borð farið út í að spyrja með þeim hætti sem hér um ræðir. Það er skýringin fyrir þeirri breytingartillögu sem við leggjum fram. Á hinn bóginn viðurkenni ég að spurning okkar er ekki nægilega skýr að þessu leyti frekar en tillaga stjórnlagaráðs, (Forseti hringir.) þ.e. hún er ekki skýr að því leyti að hún tekur ekki af skarið um það hvort fullveldisframsal sem þar er talað um felur í sér aðild að Evrópusambandinu eða aðeins minni háttar framsal á takmörkuðu sviði.