140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Okkur hefur orðið tíðrætt um stjórnmálamenningu og meðal annars nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni svo stjórnmálamenning og umræða í samfélaginu verði vitrænni en verið hefur. Ég held að fyrsta skrefið á því stigi ætti að vera það að þingmenn hérna inni ættu að halda sig við það að túlka sínar eigin skoðanir en ekki gera bæði öðrum þingmönnum og flokkum upp skoðanir og að þeir hafi skipt um skoðanir. (Gripið fram í.)

Mín skoðun er hins vegar sú að það sé skynsamlegt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslur. Mín skoðun er sú að það sé jafnvel skynsamlegt að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Ef spurningarnar eru skýrar munu þær skila miklu.

Hver valdi þær spurningar sem hér eiga að koma fram? Jú, meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Var það gert í víðtækri sátt? Er líklegt að um þær ríki sátt í samfélaginu? Er líklegt að niðurstaðan verði sú kosningaþátttaka og samhljómur sem varð um stjórnarskrána (Forseti hringir.) 1944? Nei, því miður, því að hér vantar víðtæka sátt og virðingu fyrir skoðunum hinna. Ég mun því miður ekki geta samþykkt þetta hér í dag.