140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við munum greiða atkvæði hér um einstaka liði tillögunnar. Þá gefst tilefni til þess að ræða einstakar spurningar, en um málið í heild sinni er þetta að segja: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir því, allt frá því að stjórnlagaráð skilaði af sér tillögum sínum, að málið yrði rætt efnislega á Alþingi. Það er það sama og formaður stjórnlagaráðsins óskaði eftir að þingið gerði, að við tækjum umræðu hér á þinginu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að tillögur stjórnlagaráðs væru ágætisinnlegg í þá vinnu sem bíður þingsins en meiri hlutinn hefur hagað málum þannig hér á þinginu þennan vetur sem liðinn er að nær heilt ár er liðið án þess að nokkuð markvert hafi gerst. Nú á að fara að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október á þessu ári þannig að rúmt ár mun líða frá því að stjórnlagaráð (Gripið fram í.) lauk störfum, ráðið sem meiri hlutinn kaus sér og var ekki kosið af fólkinu í landinu heldur af meiri hluta þingsins, þar til þingið er komið með einhverja niðurstöðu í hendurnar og getur farið að vinna að málinu. (Forseti hringir.) Þetta er að gerast á ábyrgð meiri hlutans. Það var ykkar val að taka málið ekki til efnislegrar umræðu á þinginu og vinna með málið. Við erum tilbúin til þess.