140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

lengd þingfundar.

[14:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég hlýt að gera athugasemd við það að hér er kallað til atkvæðagreiðslu eina ferðina enn um lengd þingfundar og hæstv. forseti hefur ekki haft fyrir því að ræða það við kóng eða prest, ræða það við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar, heldur er þetta bara orðið fastur liður eins og venjulega. (Gripið fram í: Hneyksli.) Þetta er algjört rugl, frú forseti, (Gripið fram í.) og það er algjörlega óásættanlegt að hæstv. forsætisráðherra hafi talað í eina tíð fjálglega um að þingið ætti að vera sjálfstætt, að þingið ætti ekki að vera handbendi framkvæmdarvaldsins og að þingið ætti að búa til sína eigin starfsáætlun og fara eftir henni en svo er það ekki gert. Ég hef stutt hæstv. forseta í þeirri sannfæringu virðulegs forseta að hér eigi að fara eftir starfsáætlun sem allir flokkar samþykkja og koma að því að semja. Þetta gengur ekki, frú forseti, og ef forseti (Forseti hringir.) ætlast til þess að hér verði áframhaldandi gott samstarf á milli stjórnarandstöðunnar og virðulegs forseta er lágmark að bera undir stjórnarandstöðuna hversu lengi fundur á að standa.