140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:07]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það var athyglisvert að á sama tíma og hér í þinginu stóð yfir harðvítugt málþóf tveggja gömlu íhaldsflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, gegn því að þjóðin fengi áframhaldandi aðkomu að endurskoðun stjórnarskrárinnar og gegn því að þjóðin fái að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs í haust, var ríkisstjórnin að kynna metnaðarfulla fjárfestingaráætlun fyrir Ísland, áætlun byggða á vandaðri stefnumótun, byggða á framtíðarsýn og traustri fjárhagsstjórn.

Sú fjárhagsáætlun sem nú hefur verið kynnt mun styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi. Hún er liður í nýrri sókn eftir efnahagshrunið og þær hremmingar sem þjóðin hefur mátt þola eftir áratugastjórnartíð þeirra tveggja stjórnmálaflokka sem á sömu stundu og fjárfestingaráætlunin var kynnt stóðu í sínum alþekktu niðurrifsstjórnmálum og málþófi. Sjaldan ef nokkru sinni höfum við fengið gleggri mynd af þeim mun sem er á niðurrifsstjórnmálum og uppbyggingarstjórnmálum og hann birtist meðal annars í ræðum manna í dag.

Fjárfestingaráætlunin lítur nú dagsins ljós sem afrakstur þeirrar forsjálni sem viðhöfð hefur verið í ríkisfjármálum. Hún er möguleg vegna þess að við sjáum nú fram á drýgri tekjur ríkissjóðs í formi auðlindagjalda en líka vegna sölu eignarhlutar ríkisins í bönkunum. 39 milljarðar kr. munu með þessu móti leiða til fjárfestinga og framkvæmda fyrir um 88 milljarða kr. og tugir milljarða munu þar með flæða um lífæðar samfélagsins til uppbyggingar á innviðum þess, til dæmis með stórum samgönguframkvæmdum, til samfélagslegra verkefna í almannaþágu, til verkefna sem hleypa lífi í atvinnulífið allt og byggðir landsins, til eflingar rannsóknum og tækniþróun, sóknaráætlunum, atvinnuþróun, eflingar græna hagkerfisins, ferðaþjónustunnar og skapandi greina. Grunnurinn er stefnumótun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, ríkisstjórnar jafnaðarmanna og félagshyggjufólks sem hefur það einbeitta markmið að koma þjóðinni út úr þeirri kreppu sem hrunstefna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks leiddi yfir samfélagið, og stjórnar sem hefur ekki unnt sér hvíldar við endurreisn íslensks samfélags til að auka velferð og jöfnuð og hefur meira að segja getið sér orð á alþjóðavettvangi fyrir árangur í þeim efnum.

Ef þetta nær fram að ganga munu skapast 4.000 störf og staða ríkissjóðs batna um 20 milljarða á þremur árum. En það sem mest er þó um vert er sú bráðnauðsynlega uppbygging innviða sem nú getur átt sér stað með flýtingu stórframkvæmda eins og jarðgöngin fyrir vestan og austan. Það skiptir ekki síst máli á Vestfjörðum þar sem byggðirnar hafa orðið fyrir hvað sárustum búsifjum undanfarna áratugi, meðal annars og ekki síst vegna þess óréttláta kvótakerfis sem hefur svo sannarlega tekið sinn toll og valdið alvarlegri byggðaröskun víða. Þann halla er löngu tímabært að bæta því að ekki var það gert í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks fyrr á árum velmegunar og góðæris þegar þessir tveir flokkar fóru ekki aðeins með landsstjórnina heldur stjórnuðu nánast öllum sveitar- og bæjarfélögum landsins með meirihlutasamstarfi sín á milli. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna og það skiptir máli hvernig er stjórnað og það er aldrei mikilvægara en í efnahagsþrengingum að hafa jafnaðar- og félagshyggjumenn við stjórnvölinn.