140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þá er rétt að taka fram að hér var ríkisstjórn frá árinu 2007 sem iðulega var kölluð ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar í þessum þingsal. Ég sat í þeirri ríkisstjórn og ég vil upplýsa hv. þingmann að aldrei, ekki undir neinum kringumstæðum, vöruðu hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar við hruni. Það er ekki hægt að benda á neinar tillögur frá þeim sem hefðu getað lágmarkað þann skaða sem sannarlega varð.

Í þeirri hæstv. ríkisstjórn sat núverandi hæstv. forsætisráðherra hvorki meira né minna en í ráðherrahóp um ríkisfjármál sem fjórir ráðherrar voru í og var þess vegna algerlega með puttann á púlsinum hvað var í gangi og hvernig mál þróuðust.

Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um að ég var í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er langstærsta sveitarfélagið og slær tóninn. Þar unnum við sjálfstæðismenn að því að lágmarka þann skaða sem varð af því að R-listinn, sem samanstóð af Samfylkingunni, Vinstri grænum og öðrum, keyrði á skuldsetningu. Þeir fóru með skuldirnar úr einum stað í annan, bjuggu til hlutafélög og reyndu að fela eins mikið og mögulegt var, skuldsettu Orkuveituna með því að færa skuldir frá borgarsjóði yfir í það fyrirtæki svo að dæmi sé tekið. Ég hef verið lengi í stjórnmálum. Í þeim kosningum, hvort sem það var 2003 eða 2007, komu Samfylkingin eða Vinstri grænir ekki með neinar þær viðvaranir sem hægt hefði verið að vísa í þegar alþjóðlega bankahrunið varð. Að koma hingað upp, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerir, með þessa ræðu er því fullkomlega fáránlegt.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að í skýrslu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er sérstaklega tekið fram að ástæðan fyrir því að hægt var að taka á bankahruninu var sú að staða ríkissjóðs var góð. Hverjir unnu gegn því í orði og æði að greiða niður skuldir ríkissjóðs? Það voru hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og þeir gerðu allt það sem sneri að sparnaði tortryggilegt. Þeir hafa nú verið við völd um tíma og þegar loforðaflaumurinn frá þeim byrjaði varðandi atvinnumálin voru 14.500 manns atvinnulausir, þar af höfðu 300 verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Núna, eftir allan loforðaflauminn, búið að lofa 50.000 störfum, er atvinnuleysi um 11.000 og um 4.000 atvinnulausir meira en í eitt ár.

Hér erum við að tala um kosningaloforðaplagg Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Það hefur það markmið að friða einn hv. þingmann þannig að hann sé í liði með stjórnarflokkunum, það er hv. þm. Guðmundur Steingrímsson. Í dag afgreiddum við annað mál sem gekk út á hrossakaup fyrir Hreyfinguna og síðan eru alls konar hlutir sem eiga að selja þá hugmynd að skuldsetja sjávarútveginn út í hið óendanlega með hinu svokallaða veiðileyfagjaldi. Hér kemur hæstv. ríkisstjórn og segist ætla að fara út í arðgreiðslu hjá bönkunum. Hvað þýðir það? Það þýðir að nú halda erlendir kröfuhafar hátíð. Ekki á að fara í meiri skuldaleiðréttingar heldur fara að greiða út arð og það eru erlendu kröfuhafarnir sem fá þann arð.

Það gleymdist að vísu að ræða að menn ætla að selja hlut úr Landsbankanum. Hann mun skaðast verulega á ríkisstjórnarstefnunni vegna þess að hæstv. ríkisstjórn gleymdi að kanna hvaða áhrif þetta hefði á bankana. Þetta hefur í það minnsta 30 milljarða kr. tap fyrir Landsbankann í för með sér og hver ber það? Ekki kröfuhafar gamla bankans vegna þess að þeir sömdu þannig við ríkisstjórnina að skattgreiðendur munu greiða allan þann kostnað.

Virðulegi forseti. Í þessari örstuttu ræðu náði ég því miður ekki að lesa upp úr fréttum um fyrri kosningarnar, 2009, 2010 og 2011, þegar öllu var lofað af hæstv. forsætisráðherra, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, efndirnar engar, ekki frekar en um þetta ágæta plagg.