140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þjóðhagsleg áhrif bættra samgangna eru augljós burt séð frá því hvar ráðist er í þær, það skiptir ekki máli hvort það er með gerð jarðganga í gegnum Vaðlaheiði eða jarðgangagerð annars staðar á landinu eða bættum samgöngum almennt. Það þarf í sjálfu sér ekki að færa rök fyrir því að bættar samgöngur auka lífsgæði, þær verða til þess að stækka atvinnusvæði og auka möguleika fólks til búsetu á þeim stöðum sem það býr í staðinn fyrir að þurfa að flytja, t.d. vegna náms og annarra aðstæðna í lífinu. Þjóðhagsleg arðsemi bættra samgangna er augljós.

Hún er hins vegar ekki forsenda þessa verks. Það var aldrei lagt af stað í það vegna þess sérstaklega, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, heldur vegna þess að það væri hægt að ráðast í þessa framkvæmd. Þjóðhagslega hagkvæmnin er hins vegar augljós og, eins og ég benti á í ræðu minni áðan, (Forseti hringir.) því meiri sem slíkar framkvæmdir eru nærri þéttbýli og byggð.