140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

eignarhald á 365 fjölmiðlasamsteypunni.

[10:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrir nokkru og nokkuð lengi hafa staðið yfir umræður um eignarhald á 365 sem er stærsta einkafjölmiðlafyrirtækið á Íslandi. Við erum náttúrlega með annað sem er ríkisfyrirtæki í eigu eins aðila, ríkisins, sem stjórnar því og ræður en á 365 er mjög óljóst eignarhald. Ég vil spyrja hæstv mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, hvort hún sé sátt við þá stöðu að sumir lýsi því yfir að þeir eigi fyrirtækið, aðrir lýsi því yfir að þeir eigi fyrirtækið ekki og það sé nóg af því að það liggi ekki fyrir skjalfest vegna þess að eignarhaldið er dreift út og suður um Seychelleseyjar og ég veit ekki hvað, í Lúxemborg, þar sem engar upplýsingar er að hafa. Er ekki nær, fyrst við erum að krefjast þess að vita um eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum, annaðhvort að sleppa því alveg eða gera kröfu til þess að eignarhald liggi ljóst fyrir? Og maður veltir þá fyrir sér: Hvernig stendur á því að menn stofna fyrirtæki á Seychelleseyjum, í Lúxemborg og út um allt til að eiga fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi, Íslendingar? Hvaða hvatir eru á bak við, af hverju stofna þeir ekki bara fyrirtæki í Hafnarfirði, á Vopnafirði eða einhvers staðar nærliggjandi, þar tala menn meira að segja íslensku? Þetta tengist því sem ég hef margoft nefnt sem er raðeignarhald og krosseignarhald og allir þeir hringferlar sem menn voru að búa til hér um peninga og fela eignarhald.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er hún sátt við það að fá ekki að vita hvert eignarhaldið er og telur hún koma til greina að sleppa þessu alveg eða gera skarpari kröfu til að vita hverjir eru eigendur að íslenskum fjölmiðlafyrirtækjum?