140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mig langar í fyrsta lagi að ræða aðeins við þingmanninn um þennan sjávarútvegsklasa sem er í rauninni sjávarútvegurinn á Íslandi, þeir sem veiða fiskinn, sækja hann og framleiða úr honum, þeir sem þjónusta fyrirtækin í sjávarútvegi og þeir sem eru í nýsköpun og tækniþróun og öllu þessu. Allt er þetta í þessum sjávarútvegsklasa. Einhvers staðar kom fram í fjölmiðlum fyrir nokkru að allt að 35 þús. störf væru undir í þessum sjávarútvegsklasa. Það var vel heppnaður samstöðufundur í gær hjá fólkinu sem starfar í sjávarútvegi. Að vísu var lítill hópur ófriðarseggja sem vildi eyðileggja fundinn en tókst það ekki. Á þessum fundi talaði einstaklingur sem er með fyrirtæki úti á landi, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Vélfags í Ólafsfirði, og sú ágæta kona lýsti því þar að hún væri komin af eigin hvötum á þennan fund til að lýsa áhyggjum sínum af þessum frumvörpum og sérstaklega þá veiðigjaldinu, ef ég man þessa frétt rétt.

Þetta sýnir okkur að einstaklingar reka lítil og jafnvel stór fyrirtæki sem hafa lífsviðurværi sitt af því að þjónusta og þróa tæknibúnað fyrir sjávarútveginn. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort þau áhrif sem þessi ágæta kona talaði um á Austurvelli í gær gætu ekki átt við um tugi eða hundruð annarra fyrirtækja sem þjónusta þessa atvinnugrein. Mörg þessara fyrirtækja eru úti á landi en langflest á höfuðborgarsvæðinu þannig að áhrifin á höfuðborgarsvæðið væru ekki síst í gegnum það að þessi fyrirtæki yrðu á endanum ekki lífvænleg vegna þess að samdrátturinn yrði það mikill að þau lentu í verulegum vandræðum með sinn rekstur.