140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það er ljóst að þau sveitarfélög sem sent hafa inn umsagnir óttast að þessi skattheimta muni reynast byggðarlögunum mjög þung. Þetta er einmitt það sem varð til þess að hingað á Austurvöll komu rútur með fólki utan af landi til að sýna andúð sína. Það er vitanlega líka sorglegt að hér var lítill hópur einstaklinga sem reyndi að skemma þessi mótmæli, einstaklingar sem virðast styðja þessi frumvörp og gera það með því að kalla: Niður með landsbyggðina. Það er vitanlega sorglegt þegar þetta er komið í þann farveg. En þetta heyrðist úti á Austurvelli. Það er ljóst að einhverjir eru að reyna að búa til gjá þarna á milli. Við þá sömu aðila vil ég segja að það eru töluvert miklir hagsmunir fyrir höfuðborgarsvæðið að þessi iðnaður og þessi atvinnugrein gangi vel. Ég hef oftsinnis bent á það í þessum ræðustól að stærsti hlutinn af þjónustu við atvinnugreinina er á höfuðborgarsvæðinu (Gripið fram í.) fyrir utan að hér er fjöldinn allur af útgerðarfyrirtækjum, litlum og stórum. Það er í raun ótrúlegt hvað sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sýnt þessu lítinn áhuga og það vekur upp nokkrar spurningar.

Úr því að hv. þingmaður nefndi byrðina á landsbyggðinni vil ég, með leyfi forseta, lesa síðustu setningu í álitsgerð Byggðastofnunar um þetta mál, með leyfi forseta:

„Færa má fyrir því rök að veiðigjöld séu landsbyggðarskattur, enda stór hluti aflaheimilda bundinn fyrirtækjum þar.“

Að mig minnir eru 85–90% aflaheimilda bundin úti á landsbyggðinni. Þar af leiðandi kemur þessi skattheimta sérstaklega illa við samfélögin þar.