140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[19:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mig langar að vera á sömu nótum og í fyrra andsvari. Líkt og hv. þingmaður hef ég rekið augun í að nú ætlar hæstv. menntamálaráðherra að nota veiðigjaldið, sem hæstv. innanríkisráðherra ætlar að nota í samgöngumálin, til þess að efla háskólana. Þá vakna óneitanlega þær spurningar sem hv. þingmaður bar fram hér áðan, um að koma fram með breytingartillögur sem ætlunin er að fjármagna með ósamþykktu frumvarpi sem enn er til umræðu í þinginu og ekki ljóst hver afdrif þess verða.

Mig langaði að beina því til hv. þingmanns hvort hann telji eðlilegt, í ljósi þess að stjórnarmeirihlutinn leggur fram breytingartillögur við málið á forsendum umræddra veiðigjalda, að við ræðum samgönguáætlun og tillögur meiri hlutans að breytingum á meðan veiðigjaldamálið er óafgreitt. Ég spyr að þessu í ljósi þess að ætlunin er að fjármagna það þaðan.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að margir hefðu bent á að einungis lítill hluti tekna af eldsneyti rynni til vegagerðar. Ég get hins vegar upplýst að samkvæmt fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir 54 milljarða tekjum af ökutækjum á þessu ári, en einungis á að verja 15,7 milljörðum til vegagerðar. Maður skyldi ætla að borð sé fyrir báru þarna, sérstaklega þegar haft er í huga að frá árinu 2008 hafa skatttekjur ríkissjóðs vegna vörugjalds á eldsneyti hækkað um 163%. Þrátt fyrir þessar staðreyndir þarf meiri hlutinn að sækja fé í ósamþykkt frumvarp um veiðigjöld til að geta (Forseti hringir.) lagt til lágmarksframkvæmdir í vegagerð og samgöngum. (Gripið fram í.)