140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við framsóknarmenn og reyndar þingmenn annarra flokka, þar á meðal Sjálfstæðisflokksins, höfum bent á mikilvægi Íbúðalánasjóðs fyrir hinar dreifðu byggðir. Íbúðalánasjóður hefur verið drifkrafturinn í því að lána fólki á Vestfjörðum, norðausturhorni landsins, suðausturhorni landsins og náttúrlega um alla landsbyggðina, líka á höfuðborgarsvæðinu, peninga til að eignast eigið húsnæði. Ég er því fylgjandi að við rekum hér ákveðna séreignarstefnu þrátt fyrir að við eigum að sjálfsögðu að bjóða upp á fjölbreyttari úrræði líka.

Þegar talið berst að landsbyggðinni og þeirri áherslu sem mér sýnist að stóru bankarnir þrír hafi gagnvart þjónustu við landsbyggðarfólk, þegar við horfum upp á það að fjölda útibúa hefur verið lokað, nú nýverið af hálfu Landsbankans, og allt stefnir í að sú þróun haldi áfram — áhersla stóru bankanna þriggja á landsbyggðina og þjónusta við landsbyggðina virðist sem sagt vera að minnka — velti ég fyrir mér hvað hv. þingmanni finnist um þá þróun og hvort það ætti ekki að brýna okkur enn frekar í að standa vörð um og efla Íbúðalánasjóð í ríkjandi árferði. Þetta er fyrri spurningin mín.

Við hv. þingmaður erum sammála um að það þarf með einhverjum hætti að koma til móts við skuldug heimili, sérstaklega hjá Íbúðalánasjóði sem er stór aðili á þessum markaði. Hann vitnaði til tveggja hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem hafa sagt: Verði ekki ráðist í frekari aðgerðir og Íbúðalánasjóði hjálpað við að bjóða sínum viðskiptavinum sambærileg kjör og ríkisbankinn Landsbankinn gerir er í raun og veru ekki þörf fyrir Íbúðalánasjóð. Það er mat hv. þingmanna Samfylkingarinnar.

Mikil andstaða er við þær hugmyndir sem hv. þingmaður hefur kynnt. Má þá ráða í þessi ummæli hv. þingmanna að með því að koma ekki frekar til móts við viðskiptavini Íbúðalánasjóðs séu í raun og veru þessir hv. þingmenn Samfylkingarinnar að leggja til að Íbúðalánasjóður verði lagður niður og lánasafnið (Forseti hringir.) fært inn í Landsbankann sem er ríkisbanki?