140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:19]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en ég tek strax fram að ég tel að 16. gr., eins og frá henni er gengið, sé ágætismálamiðlun á milli þeirra sjónarmiða sem takast á í þessum málum. Það er ekkert í 16. gr. eins og hún er orðuð sem kemur í veg fyrir að ef sveitarfélög eða skipulagsyfirvöld vilja láta fara fram skráningu verði það gert. Í breytingartillögunni eins og hún liggur fyrir skal það gert sama hvort sveitarfélög hafi fjárhagslega burði til þess eða ekki. Það gengur ekki upp, það er bara útilokað mál.

Ég nefndi í andsvari við tillöguflytjandann í morgun dæmi um Fljótsdalshérað sem er landstærsta sveitarfélag landsins. Það er ekki enn búið að ljúka aðalskipulagi og yrði ekki gert það fyrr en eftir mörg ár ef ákvæði sem breytingartillagan kveður á um væri fyrir í lögum. Ef það ætti að leiða í lög breytingartillöguna eins og hún lítur út frá hv. þm. Merði Árnasyni værum við í raun að setja vinnu við aðalskipulag sveitarfélaga í ákveðið uppnám og að auki mundi tillagan eins og hún liggur fyrir kalla á það að sérhvert aðalskipulag í öllum 70–80 sveitarfélögum landsins yrði tekið upp og gengið til þess verks að fara að skrá. Þetta er miklu stærra mál en svo að það sé hægt að afgreiða þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Miklu frekar tel ég að menn ættu að sameinast um þá málamiðlun sem felst í núverandi tillögu nefndarinnar í 16. gr.