141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hinn pólitíski keimur nú aðallega stafa frá málflutningi hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Hann talar um að hér sé vikið að verulegu leyti frá niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar. Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að gert er ráð fyrir því að næsta verkefnisstjórn verði skipuð og að hún muni fjalla um biðflokkinn og skila niðurstöðum þar um 1. mars 2014. Það er sá farvegur sem gert er ráð fyrir að málið fari í.

Mér þætti athyglisvert ef hv. þingmaður vildi rökstyðja það aðeins nánar að hvaða leyti það sem hann telur að séu skoðanir ráðherranna í málinu gangi í berhögg við þær alvarlegustu athugasemdir sem fram komu í umsagnarferlinu. Ég sé ekki betur en að verið sé að reyna að svara vel rökstuddum og málefnalegum ábendingum um (Forseti hringir.) ákveðna virkjunarkosti, ábendingum sem ekki hafa komið fram í málinu áður.