141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekkert að vera að skattyrðast við hv. þingmann. Ég var ekki að hrósa mér af minni hagfræðiþekkingu, langt í frá, en svo mikið veit ég í hagfræði að hv. þingmaður, þó að hann hefði verið 126 ár í fjölmiðlum, hefur ekki þær forsendur sem þarf til þess að fara nákvæmlega yfir þær hagvaxtarspár sem hér er verið að birta. Það er bara einfaldlega þannig að þær byggja á sérfræðiþekkingu þeirra sem hafa gert þær. Ég er ekki að leggja neitt mat á þær. Ég er að segja að það er mikil sérfræðiþekking sem liggur að baki þeim niðurstöðum sem t.d. Alþýðusamband Íslands hefur verið að birta, þeim viðvörunum sem Seðlabanki Íslands hefur verið að leggja fram. Það eru þær sem ég byggi á að efnahagslegar forsendur þessa frumvarps geti ekki staðist. Ég vona að ég sé búinn að leiðrétta í eitt skipti fyrir öll að (Gripið fram í.) þetta hefur ekkert með mig að gera, (Forseti hringir.) þetta hefur ekkert með hv. þingmann að gera, þetta hefur með álit (Forseti hringir.) sérfræðinga að gera. (Gripið fram í.)