141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Undir þessum lið eru greidd atkvæði um það sem heyrir undir fjárfestingaráætlunina. Mig langar til að vekja athygli á því að í fjármálum hins opinbera sem Hagstofan gaf út í september kemur fram að fjárfestingar hins opinbera eru þær lægstu í lýðveldissögunni, þær lægstu í 70 ár. Síðan gaf Hagstofan aftur út í nóvember þjóðhagsspá fyrir veturinn 2012. Þar kemur fram að á komandi árum verður fjárfestingarstig hins opinbera enn lægra, þ.e. árin 2012, 2013 og 2014, sem sagt minnstu opinberu fjárfestingar í lýðveldissögunni.

Þetta er það sem er fram undan. Þess vegna stöndum við hér og bendum þeim sem hafa mært þessi verkefni á það hversu rýrt innihaldið er. Við reynum að opna augu ykkar fyrir því að það er bara ein leið til að gera betur og hún er sú að fara ekki þá skattahækkanaleið sem er lögð til í þessu fjárlagafrumvarpi og hefur verið gert undanfarin ár, heldur sú að skapa hagvöxt, ný störf og draga fram nýja fjárfestingu í einkageiranum. Það er leiðin út úr kreppunni. Þannig getum við aukið opinberar fjárfestingar (Forseti hringir.) sem svo sannarlega eru mikilvægar. Það sem er að er að þetta er bara svo rýrt. (Forseti hringir.) Þetta er það minnsta sem við höfum gert allan lýðveldistímann. Við erum ekki að tala um að (Forseti hringir.) verkefnin séu vond, við erum að tala um að þið hafið ekki gert það sem nauðsynlegt (Forseti hringir.) er til að gera miklu betur. Það er vandamálið.