141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um aukin framlög til sjúkraflutninga, en þau framlög koma einungis til sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

Við höfum rætt um forgangsröðun fjármuna. Ég skora á hv. fjárlaganefnd að vinna að því á milli umræðna að þetta fjármagn verði aukið. Ég nefni sem dæmi að Brunavarnir Suðurnesja sem sjá um sjúkraflutninga á Suðurnesjum fá ekki fjármagn til að verðlagsbæta samning sem tekur gildi 1. mars. Þetta eru ekki stórar upphæðir. Ég greiddi áðan atkvæði gegn verkefni sem ég vil kalla gæluverkefni. Það er ákaflega gott verkefni en ekki verkefni sem á að vera í forgangi núna. Við erum að tala um mál sem snertir líf og dauða fólks, þetta eru 5–10 milljónir, í mesta lagi 15, (Forseti hringir.) sem vantar upp á. Ég skora á hv. fjárlaganefnd að greiða úr þessu milli umræðna.