141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lýsti, fædd og upp alin í nágrenni Þjórsár, má segja að þegar nýja brúin yfir Þjórsá kom sá fólk þennan fagra foss. (VigH: Já.) Það eru væntanlega víða geymdar náttúruperlur í landinu okkar fagra og oft er það svo að þegar mannshöndin eða mannshugurinn og framkvæmdir hafa verið þá eru þessar perlur margar hverjar aðgengilegri okkur mönnunum en áður.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, hvort heldur er við Urriðafoss eða á mörgum öðrum stöðum, að við eigum að stíga varlega til jarðar og afla okkur upplýsinga um það sem við hyggjumst gera og er óafturkræft í náttúrunni. Það er mín skoðun að bæði Holtavirkjun og Hvammsvirkjun séu með þeim hætti að hægt sé að fara í þær en ég virði að skoða frekar Urriðafossvirkjun.

Ég held að æðimargt af því sem við erum að ræða hér sé byggt á tilfinningu frekar en gallharðri rökhugsun og rökfærslu, en við erum sammála um það að landið okkar geymir margar dýrmætar náttúruperlur. Við erum sammála um að varðveita margar þeirra og fara aldrei í virkjanir á einstaka stöðum en það hlýtur að þurfa að svara því af hverju við viljum ekki fara af stað með virkjanir sem að mati æðimargra og kannski flestra eru augljóslega hagkvæmar fyrir land og lýð.