141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu, réttmætar og athyglisverðar vangaveltur og ábendingar um einstök atriði málsins.

Ég vil fyrst taka af öll tvímæli um það, ég hef kannski ekki verið nógu skýrmæltur áðan, að verið er einmitt að líta til þess að varadómararnir komi víðar að, fyrrverandi hæstaréttardómarar og þeir sem taldir eru upp sem dæmi, prófessorar og hæstaréttarlögmenn. Það var nefnt sérstaklega í umfjöllun um málið í nefndinni. Það er því alls ekki verið að líta til þess að um sé að ræða eingöngu fyrrverandi hæstaréttardómara heldur þvert á móti. Rætt var sérstaklega að það ætti ekki síður við um hæstaréttarlögmenn og prófessora með víðtæka og mikla reynslu, í fullu fjöri og væri fengur að.

Vel má vera að mikilvægt hefði verið að rökstyðja betur nauðsyn þess að hægt væri að skipa varadómara sem eru orðnir sjötugir, en meginmálið var að ef akkur væri að því að geta gert það og gripið þannig til fólks með mjög umfangsmikla og góða reynslu sem væri í fullu starfsfjöri og fullri orku þrátt fyrir að hafa náð þessum aldri. Það var svo sem bara meginröksemdin fyrir því í sjálfu sér.

Hvað varðar fordæmisgildi hæstaréttardómanna, fjölgunina og afleiðingarnar af því má sjálfsagt velta heilmikið vöngum yfir hvað hafi orðið til þess. En það er alla vega aftur verið að fækka dómurunum, á tilteknu tímabili verða þeir því aftur komnir í þá tölu sem fyrir var. Það er verið að ganga til baka hvað það atriði varðar.