141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Síðasti sólarhringur hefur verið ansi tíðindamikill tími í Evrópusambandsumræðunum. Ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar frá því í gærmorgun hefur að minnsta kosti sett þetta mál töluvert á dagskrá. Það er hins vegar ekki mjög auðvelt að átta sig á því hvað hér er á ferli. Annars vegar tala samfylkingarmenn upp í eyrun á sínu fólki og segja: Það eru engin tíðindi í þessu. Við munum bara halda áfram eins og við höfum verið að gera. Síðan koma þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og segja okkur akkúrat hið gagnstæða, að hér séu mikil tíðindi að gerast, hér séu heilmikil tímamót og sýni að þeir hafi fullt vald á þessu máli.

Í gær voru þessi mál rædd og hæstv. utanríkisráðherra sagði þá meðal annars að þessi mál væru á góðum rekspöl. Að vísu stæðu tveir kaflar út af og annar væri landbúnaðarkaflinn. Hæstv. utanríkisráðherra sagði, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er annars vegar landbúnaðarkaflinn sem er heimatilbúinn vandi …“

Nú vil ég beina orðum mínum til hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, því að það er augljóst að honum er ætlað þetta skeyti: Hefur hæstv. ráðherra þverskallast við? Var hann ekki að undirbúa þessar viðræður með eðlilegum efnislegum hætti? Á þessi heimatilbúni vandi orsakir sínar í því að hæstv. fyrrverandi ráðherra hafi ekki sinnt þessum málum með eðlilegum hætti?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvaða breytingu hann sjái núna vera að gerast í þessu viðræðuferli. Það liggur fyrir að núna er 11 köflum lokið. Þar höfum við fallist á lagaumhverfi Evrópusambandsins og ég spyr hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér (Forseti hringir.) að á næstunni muni hann hægja á þeirri aðlögun sem sannarlega hefur verið til staðar varðandi aðild okkar að Evrópusambandinu og hvort það muni til dæmis hægja á viðtökum ráðherranna, ráðuneytanna og stofnananna á (Forseti hringir.) IPA-styrkjum o.s.frv.

Aðalspurningin er samt þessi: Var það meðvituð ákvörðun hv. þingmanns og hæstv. fyrrverandi ráðherra Jóns Bjarnasonar að þverskallast við að landbúnaðarkaflinn (Forseti hringir.) kæmist á dagskrá og hefur hann kannski verið að beita bellibrögðum eins og það var orðað hér áðan?

(Forseti (ÁRJ): Enn minnir forseti hv. þingmenn á ræðutímann.)