141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Dagurinn í gær var ekki einasta merkilegur í íslenskri stjórnmálasögu vegna þróunar ESB-málsins hér á landi, heldur var hann merkilegur að því leyti að hæstv. forsætisráðherra kom fram í kvöldfréttum og sagði það ljóst að stjórnarskrármálið mundi hafa algjöran forgang í þinginu og stjórnarflokkarnir yrðu að setja til hliðar mörg mál til þess að stjórnarskrármálið hefði hér algjöra forustu.

Ég spyr enn á ný, virðulegi forseti: Hver borðar stjórnarskrána? Hví er ekki forgangsraðað hjá þessari ríkisstjórn? Við framsóknarmenn höfum kallað eftir því allt kjörtímabilið. Hvers vegna er ekki unnið hér að því að skapa sátt á vinnumarkaði? Hvers vegna er skuldugum heimilum ekki komið til hjálpar? Nei, nú boðaði hæstv. forsætisráðherra að breytingar á stjórnarskránni skyldu verða keyrðar í forgangi í þinginu, og það sem kannski engum datt í hug, að meira að segja er Samfylkingin farin að gefa afslátt af Evrópusambandsumsókninni. Það sjá náttúrlega allir í gegnum þann leik sem var settur af stað í gær, það stóð aldrei til að opna þessa kafla fyrir alþingiskosningar, og vegna þess að hér er verið að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-samninginn verður einfaldlega kosið um ESB-viðræðurnar í næstu alþingiskosningum sem vonandi fara fram ekki seinna en 27. apríl nk. Það er alveg skýrt hvaða flokkur vill ganga með þjóðina inn í Evrópusambandið, Samfylkingin. Úrslit þeirra kosninga koma til með að ráða, enda hafa stjórnarliðar sagt hér í dag og í gær að ný ríkisstjórn taki ákvörðun um framhaldið.

Því treysti ég íslensku þjóðinni, virðulegi forseti, til þess að kjósa Samfylkinguna í burtu í næstu kosningum. Þá þarf þetta mál ekki að þvælast fyrir okkur meir og (Forseti hringir.) þá er hægt að fara að byggja upp innviði íslensks samfélags.