141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir hæstv. ráðherra ansi brattur að segja að það sé enginn efi í hans huga um afstöðu þingsins. (Utanrrh.: Þetta er hálf þjóðin.) Nei, ég er að tala um Líbíu. Ég spurði hæstv. atvinnuvegaráðherra … (Utanrrh.: … seint.) Nei, ég spurði hann daginn eftir að Norður-Atlantshafsráðið tók ákvörðun um að heimila … (Gripið fram í.) Nei, það var daginn eftir, ég man það sérstaklega, ákvörðunin var tekin á sunnudagskvöldi, þetta var í fyrirspurnatíma á Alþingi á mánudegi. Ég spurði: Ertu fylgjandi þessari ákvörðun? Ég man ekki nákvæmt orðalag en ég man nákvæmlega svarið: Nei, enda var ég ekki spurður. Ég leyfi mér því að hafa efasemdir um afstöðu þingsins. Ég get ekki fullyrt hvernig sú atkvæðagreiðsla hefði farið, líka út frá því hvernig þingmenn Vinstri grænna hafa talað. Hæstv. ráðherra vísaði núna í að þetta hefði verið með samþykkt öryggisráðsins. Já, vissulega. Ég er sammála því, en þingmenn Vinstri grænna hafa oft og ítrekað sagt að NATO hafi farið fram úr þeirri öryggissamþykkt eins og ráðherrann þekkir.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa þetta minnihlutaálit. Það var mikil umræða um það innan utanríkismálanefndar. Ég geri líka athugasemdir við að greinin er að byggð á fordæmum. Í því sambandi eru Afganistan, Írak og Kosovo nefnd, það eru dæmi sem við þekkjum. Undanþágur sem sniðnar eru að einhverjum dæmum í fortíðinni finnast mér ekki vera góður grunnur til að byggja á til framtíðar vegna þess að maður veit að það kemur alltaf upp eitthvert dæmi sem ekki passar inn í undanþáguna. Sérfræðingar sem mættu fyrir nefndina sögðu að mikil hætta væri á (Forseti hringir.) túlkunarvanda og að það gæti verið (Forseti hringir.) til vandræða varðandi aðild. Mér finnst sénsinn of stór (Forseti hringir.) til að taka hann.