141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:17]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt, það hefur verið tekist á um það, og var gert strax í byrjun í aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið, hvort gefa ætti eftir þann rétt okkar sem við höfum staðfestan í íslenskum lögum að banna óheftan innflutning á hráu ófrosnu kjöti. Um það hefur verið tekist á, það er alveg rétt, og mjög hart tekist á um það í samningstextanum í þessum kafla í utanríkismálanefnd. Eins og sá texti kom inn í nefndina á sínum tíma var lítið hald í honum og mátti segja að hann væri algert lögbrot í sjálfu sér.

Það er hins vegar alvarlegt ef rangt er farið með í þessari skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, ef hún hefur einhverja stjórnsýslulega stöðu. Þar er sagt eins og ég sagði áðan að ESA hafi hafið samningsbrotamál vegna dráttar Íslands á innleiðingu reglugerðar ESB um þetta mál. Það er rangt. Hins vegar er rétt að þeir hafa sent fyrirspurn um málið. Þeirri fyrirspurn hefur verið svarað, einmitt af þeim sérfræðingahóp sem ég skipaði til að takast á við málið á þeim tíma. Í því svari var ítrekuð og rökstudd ástæðan fyrir því að 13. gr. EES-samningsins væri beitt með þeim hætti sem gert var. Þetta svar hefur verið sent út en ekki hafa komið nein viðbrögð við því. Það var því rangt hjá ráðherranum að höfðað hefði verið brotamál og það er líka rangt sem látið er að liggja í þessum texta að lagasetningin sem Alþingi setti á sínum tíma um að banna innflutning á lifandi dýrum og hráum ófrosnum kjötafurðum stæðist ekki þennan samning. Alþingi hefði varla verið að samþykkja lög ef (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra getur svo komið núna og dregið í efa að það væri réttmætt og það væri samningsbrot. (Forseti hringir.)

Ég vildi koma á framfæri leiðréttingu á þessu og ég vil standa fast á því (Forseti hringir.) að við gefum ekki eftir bann á innflutningi á lifandi dýrum og hráum óunnum kjötvörum.

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir hv. þingmenn á ræðutímann.)

Já, hún er eitthvað vitlaus, þessi klukka.