141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka afar málefnalega, ábyrga og góða umræðu og þakka málshefjanda enn og aftur fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Það er ljóst að hér eftir sem hingað til munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að bregðast við því sem þarna gerðist, nýta þá gríðarlega miklu þekkingu stofnana og heimamanna sem er fyrir hendi og stilla saman strengi. Hér hefur Hafrannsóknastofnun verið nefnd, Umhverfisstofnun hefur líka komið að með sína sérfræðinga og sérfræðiþekkingu og Náttúrustofa Vesturlands hefur gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki.

Það er mikilvægt að geta þess að bakland fyrir þessar aðgerðir hefur verið búið til í hópi fjögurra ráðuneytisstjóra samkvæmt minnisblaði til ríkisstjórnar á föstudaginn var, sem hefur það hlutverk að taka ákvarðanir eða gera tillögur til ríkisstjórnar um fjárútlát af þessum sökum vegna þess að okkar skilningur er sá að þarna sé um hamfarir að ræða sem þarf að bregðast við með sambærilegum hætti og við öðrum hamförum.

Það hafa auðvitað komið upp spurningar og vangaveltur í þessari umræðu um hugsanleg áhrif þverunar og þær umræður eru gríðarlega mikilvægar. Þessar vangaveltur hafa komið mjög mikið frá heimamönnum og Hafrannsóknastofnun hefur þegar rætt þessi mál við Vegagerðina. Það er ljóst að þetta þarf að skoða sérstaklega og spyrja hvort þarna séu einhverjir lærdómar sem þarf að draga varðandi sambærilegar framkvæmdir í framtíðinni. Það kemur inn á það sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi varðandi áhrifin á lífríkið í heild og það er sýn sem við þurfum að temja okkur sífellt meira; að hugsa um þetta í heild.

Ég vil geta þess að lokum að Hafrannsóknastofnun er að vinna að áætlun um sérstaka rannsókn á orsökum síldardauðans í Kolgrafafirði, þessi tvö skipti, m.a. með tilliti til þverunarinnar og áhrifa hennar.