141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi andsvör við mig vegna þess að hann hefur leitast við að útskýra þessa tillögu og það er í raun það sem ég var að kalla eftir og þakka ég hv. þingmanni fyrir það, það er myndarlega gert. En það sem ég er að reyna að benda á er að það eru ekkert endilega allir sem mundu skilja þetta sem aukatíma heldur frekar þann tíma sem yfirleitt er boðið upp á. Þetta er þá kannski bara deila um keisarans skegg en þegar ég las tillöguna eins og hún kemur fyrir fannst mér þetta ekki vera skýrt.

Varðandi hvaða skoðun Sjálfstæðisflokkurinn hafi á þessari tillögu per se höfum við ekki tekið hana sérstaklega fyrir né ályktað um hana. Við erum nýkomin af landsfundi og þar var þessi tillaga frá Siv Friðleifsdóttur ekki til umfjöllunar en hins vegar fjölluðum við um Ríkisútvarpið. Við töldum rétt að fara yfir hlutverk útvarpsins vegna þess að meginstefna okkar er að hlutverk Ríkisútvarpsins verði að vera skýrt. Ef það á að réttlæta það að setja mikla fjármuni frá skattborgurum þessa lands í stofnun á vegum ríkisins sem er í samkeppni við einkaaðila verður að minnsta kosti að vera skýrt skilgreint á hvaða sviði sú stofnun á að starfa.