141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ábendinguna varðandi með flýtimeðferðina. Ég held að það sé skýrt í tillögunni að neytendum eigi að vera gert kleift að óska eftir flýtimeðferð hjá dómstólum vegna ágreinings um lögmæti verðtryggingar. Þetta er mjög samhljóða ákvæði sem ég lagði fram um flýtimeðferð varðandi gengistryggðu lánin og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lagði síðan fram nokkuð samhljóða mál. Ég skal athuga betur hvort það hafi ekki verið orðað með þessum hætti. Eins og ég hef litið á það er hér verið að fara fram á að neytendur fái flýtimeðferð.

Hvað varðar breytingartillöguna á þskj. 1220 þá kemur fram í lögunum sjálfum að hægt sé að breyta samningi til hagsbóta fyrir neytendur. Hér er sama hugsun á bak við, þetta er fyrst og fremst gert að kröfu neytanda, ef neytandi telur að það sé honum til hagsbóta að ógilda samninginn eigi hann rétt á því. Það eru ákvæði í lögunum um að menn geti skipt um skoðun innan ákveðins tíma. Þetta er hugsað til þess að ítreka að þetta sé alveg á hreinu ef í ljós kemur að réttum aðferðum hafi ekki verið beitt. Menn verða samt sem áður að standa skil á þeirri fjárhæð sem þeir fengu að láni.