141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað biðja hæstv. forseta um að gera hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur viðvart. Ef hún getur verið hér og hlustað á ræðu mína hugðist ég beina til hennar spurningum. Ég vænti þess að hún komi í andsvör við mig ef hún hefur tök á því.

(Forseti (SIJ): Forseti mun gera gangskör að því að láta hv. þingmann vita en vill jafnframt geta þess að klukkan í borði er biluð og forseti mun mæla tíma á forsetastóli.)

Takk fyrir það. Það væri mjög æskilegt ef hv. þingmaður hefði tök á því að koma hingað í andsvör við mig og væri viðstödd vegna þess að ég vildi beina til hennar fjórum spurningum. Ég er orðinn þeirrar skoðunar eftir umræðuna að tillaga fjórmenninganna sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir er 1. flutningsmaður að sé í raun og veru úthugsuð til að eyðileggja málið og setja það í pólitíska upplausn.

Af hverju skyldi ég segja það? Ástæðan fyrir því er mjög einföld. Frumvarpið sem við ræðum og er flutt af hv. þm. Árna Páli Árnasyni, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er mjög einfalt, það er tvær greinar. Í fyrsta lagi ein grein um að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar sem er breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.

2. gr. frumvarpsins er fimm orð. Lög þessi öðlast þegar gildi. Markmið frumvarpsins er alveg skýrt og klárt og þegar mælt var fyrir frumvarpinu, bæði af hæstv. menntamálaráðherra og hv. þm. Árna Páli Árnasyni, var mjög skýrt hver áætlun þeirra hv. þingmanna var. Hún var sú að gera breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar og ekkert annað. Þess vegna held ég, og er sífellt að færast nær þeirri skoðun minni, að í raun og veru eigi sér stað ákveðið uppgjör innan þingflokks Samfylkingarinnar með það að markmiði að reyna að eyðileggja tillöguna fyrir hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Það er ekkert skylt tillögunni sem er flutt af þeim hv. þingmönnum við það frumvarp sem um ræðir. Markmið frumvarpsins og hugmyndin á bak við það var mjög einföld, þ.e. að reyna að koma þeirri vinnu sem hefur verið unnin í allan þennan tíma í þann farveg að hún glatist ekki og hægt sé að gera breytingar á stjórnarskránni án þess að boða til þingkosninga eins og er í núverandi stjórnarskrá. Það var hugsunin og það var markmiðið, skýrt markmið frumvarpsins.

Síðan kemur tillagan frá hv. þingmönnunum fjórum, og þar á meðal formönnum þingflokka beggja stjórnarflokkanna, og ég er auðvitað mjög hugsi yfir því hvernig sambandið er eiginlega í þeim stjórnarflokkum, ég tala nú ekki um í Samfylkingunni. Eina markmiðið er í raun og veru að eyðileggja frumvarp formanns Samfylkingarinnar og ekkert annað. Það styður þá skoðun mína, sem ég er alltaf að komast betur og betur á, að áður en frumvarpið er lagt fram sendir hv. þm. Árni Páll Árnason texta til formanna stjórnarandstöðuflokkanna, sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa greint frá hér, með hugmyndum um hvort hægt sé að nálgast það að koma auðlindaákvæðinu inn til viðbótar. Með því að leggja síðan fram tillögu þvert á þann texta degi seinna eða tveimur dögum seinna er ekki verið að gera annað en að gera málflutning hans ótrúverðugan. Ég hallast að því að verið sé að reyna að færa þau innanflokksmein sem eru í Samfylkingunni inn í þingsal og stilla þeim upp í stríði við stjórnarandstöðuna. Það er mjög dapurlegt.

Ég hef nálgast umræðuna og gerði það strax þegar mælt var fyrir frumvarpinu. Ég tók mjög jákvætt í það og vildi skoða hlutina því að mér finnst margir hv. þingmenn hafa gert of mikið úr því hversu erfitt er að breyta stjórnarskránni. Það er í raun og veru ekki mjög erfitt. Það þarf aukinn meiri hluta eða meiri hluta þingmanna og síðan er boðað til kosninga og það staðfest á næsta þingi. Þröskuldurinn er ekkert hærri en það. Mér fannst mjög athyglisverð hugmynd að gera kannski ekki stjórnarskrárbreytingar í krampakasti við lok kjörtímabils heldur á miðju kjörtímabili, þá eru menn ekkert uppteknir við það, og að taka eigi ákveðna kafla til að laga málið.

Síðast en ekki síst fannst mér tilraun hv. þingmanna og flutningsmanna frumvarpsins sem við ræðum mjög áhugaverð, sérstaklega í ljósi stöðunnar sem málið var í. Það fór í raun og veru ekkert á milli mála þegar var mælt fyrir því að málið var komið í algert öngstræti. Þess vegna var verið að reyna að skera á hnútinn og þess vegna finnst mér tillaga hv. þingmanna sem flytja hana mjög vafasöm og í rauninni til þess fallin að eyðileggja málið. Það ríkir mikil tortryggni í þinginu og það er auðvitað ekkert sem segir að ekki komi frekari breytingartillögur á milli 2. og 3. umr. Við höfum ekkert í hendi um það og ef átti að koma þeim málum í höfn sem forustumenn stjórnarflokkanna lögðu til hefðu menn eingöngu átt að taka umræðu um frumvarpið sem þeir lögðu fram. Reyndar tel ég þá þingsályktun sem var lögð fram samhliða um hvernig ferlið gæti verið inn í næsta kjörtímabil í raun og veru órjúfanlegan hluta af ferlinu. Það er í mínum huga nánast órjúfanlegur hluti af því.

Svo fer þetta til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég verð að segja að mér fannst sú hugmynd sem til að mynda kemur um það sem er gert, breytingin á þingsályktunartillögunni, vera fín og til mikilla bóta. Ég hins vegar staldraði við þegar ég sá að þröskuldurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni hafði verið lækkaður. Það sló mig ekki vel fyrst en eftir að ég hlustaði á ræðu hv. þingmanna stjórnarliðsins verð ég að viðurkenna að ég mildaðist í þeirri afstöðu minni vegna þess að ef við förum að gera breytingar á stjórnarskránni með 2/3 atkvæða þingmanna í þingsal eru kannski ekki nein átök eða lítil átök. Það er ekki sjálfgefið að það verði átök, það er gert í sátt og ekki þar með sagt að endilega verði mikil þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Það kom auðvitað fram í máli þeirra hv. þingmanna sem fluttu nefndarálitið og meira að segja einn hv. þm., Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hafði fyrirvara á því vegna þess að hún taldi að nánast enginn þröskuldur ætti að vera svo fólk hefði ekki neitunarvald með því að sitja heima. Það voru ákveðin rök í málinu. Ég gat alveg fallist á að skoða það út frá því. En að leggja fram í ferlinu þessa vitlausu tillögu, eins og ég kalla hana, um auðlindaákvæðið er að mínu mati nánast dauðadómur fyrir málið. Ég er ekki að tala um efnisinnihald tillögunnar sem slíkrar, það skiptir engu máli, en að þingflokksformaður Samfylkingarinnar skuli vera 1. flutningsmaður að tillögu sem gengur í raun og veru þvert á markmiðið með frumvarpi að lögum sem hv. þm. Árni Páll Árnason og forustumenn stjórnarflokkanna fluttu er auðvitað alveg hreint með ólíkindum. Ég ætlaði mér að spyrja hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um það en geri mér grein fyrir því að hún hefur ekki tök á því að koma hingað vegna annarra starfa sem ég geri engar athugasemdir við. Spurningin er hvort þetta sé gert í samráði við formann Samfylkingarinnar og við þingmenn Bjartrar framtíðar sem standa að málinu. Ég veit ekki hvort svo er og ég hefði viljað fá svör við því hvort það hafi verið gert. Þetta er mjög gagnrýnisvert.

Hv. þm. Magnús Orri Schram lýsti því sem eins konar tundurskeyti, og ég get alveg verið þingmanninum sammála um það, þegar breytingartillagan kom frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að setja heila stjórnarskrá inn sem breytingartillögu við málið. Mér finnst alveg fráleit hugmynd að gera það en hv. þingmaður vill leggja tillöguna fram svona. Mín skoðun er að ef á að koma málinu í höfn þurfi í fyrsta lagi að draga tillögu fjórmenninganna til baka og ná því trausti sem þarf til að menn geti farið að ræða málið á þeim grunni hvernig sé hægt að nálgast verkefnið og frumvarpið og þingsályktunartillöguna sem forustumenn stjórnarflokkanna ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni lögðu fram. Öðruvísi mun málið stranda. Það er mín persónulega skoðun og ég ítreka að það er mín persónulega skoðun. Ég tel að verið sé að færa átökin inn í þingsal sem eru í raun og veru eru innan þingflokks Samfylkingarinnar, þá óeiningu sem er þar innan dyra í málinu, og reynt að teikna málið upp svona, reynt að stranda því til að geta sagt í kosningabaráttunni: Það voru einhverjir vondir menn sem vildu ekki breyta þessum hlutum eða hinum. Það held ég og hræðist að sé hinn blákaldi veruleiki.