142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[15:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og kannski sérstaklega hvað hún hefur verið yfirveguð á köflum. Ég skil áhyggjur þeirra sem nú eru í stjórnarandstöðu af því hvar eigi að sækja tekjur á móti boðaðri lækkun á álögum á ferðaþjónustu og veiðigjaldi.

Nú stendur líka í stjórnarsáttmálanum að draga eigi til baka skerðingar á tekjum eldri borgara og öryrkja. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann í stjórnarandstöðunni minnast á að hann sé á móti því (Gripið fram í.) eða ætli að koma með tillögur um hvar megi sækja tekjur á móti.

Þær aðgerðir sem lagt er af stað með núna eru að mínu mati hóflegar og skynsamlegar. Við skulum gefa nýrri ríkisstjórn tækifæri til að leggja fram fullmótaðar tillögur en ekki fara á límingunum hér á fyrstu vikunum þegar menn eru einfaldlega að átta sig á nýrri stöðu, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ég var ánægður með ræðu hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur, kollega míns úr Norðausturkjördæmi, sem benti á að ef menn ætluðu að tiltaka ákveðnar skattalækkanir yrðu þeir að finna tekjur einhvers staðar á móti. En hv. formaður Bjartrar framtíðar, Guðmundur Steingrímsson, nefndi hér einmitt þætti sem hann vildi lækka skatta á án þess að benda á hvaða tillögur hann væri með til mótvægis.

Ég held að það sé rétt að ræða hér aðalatriðin og meginlínurnar í ríkisfjármálum og það sé mjög mikilvægt að ræða hina dökku mynd sem nú blasir við.

Hvernig var umræðan um ríkisfjármálin á síðasta kjörtímabili? Hvernig lagði síðasta ríkisstjórn af stað? Hún lagði af stað með því að setja saman skýrslu þar sem fram komu markmið um hagvöxt og verðbólgu, um jöfnuð, frumjöfnuð og heildarjöfnuð, markmið sem hún þurfti að hverfa frá á miðju kjörtímabili. Af hverju? Vegna þess að hún var eins langt frá þessum markmiðum og hugsast gat. Engu að síður þóttu þessi markmið lágstemmd. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var sannfærður um að hægt væri að ná þessum markmiðum. Til að mynda átti hagvöxtur á árinu 2012 að vera 4,4%, verðbólga átti að vera komin niður í 1,6%. En hvar stöndum við núna? Hagvöxtur er miklu minni en allir töldu hægt og raunhæft væri að ná. Verðbólgan er í hæstu hæðum.

Hér hefur enginn nefnt Icesave, stærsta mál síðasta kjörtímabils. Hér er verið að tala um einhverja milljarða í minni tekjum, það er rétt, en til stóð og ríkisstjórnin barðist fyrir því í meira en tvö ár að íslenska ríkið mundi taka á sig um 4 milljarða kostnað sem Bretar og Hollendingar höfðu fyrir því að greiða út gagnvart eigin þegnum og hafði nákvæmlega ekkert með Íslendinga að gera. Barist var fyrir því í rúm tvö ár að Íslendingar tækju á sig 24 milljarða aukinn kostnað til að borga vexti umfram skyldu, ekki frá hinum eðlilega vaxtadegi heldur níu mánuðum fyrr sem þýddi um 24 milljarða kostnaðaraukningu. Ef þetta hefði allt gengið eftir værum við að tala um virkilega slæma stöðu.

Hvert einasta skipti sem fjárlagafrumvarpið var rætt á Alþingi benti ég á að staðan væri verri. Hvað gerðist? Á síðustu þremur árum var framúrakstur upp á um það bil 160 milljarða. Ég hóf hér utandagskrárumræðu um aga í ríkisfjármálum og stend við allt það sem ég sagði þá. Verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að koma á aga í ríkisfjármálum. Það er mikilvægasta verkefnið.

Fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, boðaði að sett yrðu á laggirnar ný fjárreiðulög. Ég fagnaði því. Ágæt samstaða var í fjárlaganefnd um að þau fjárreiðulög yrðu að veruleika og unnið var að því og það rætt í nefndinni. Ég benti á það í ræðustól Alþingis. Af hverju var þetta ekki lagt fram á síðasta kjörtímabili? Af hverju var það dregið í sífellu þangað til menn runnu á rassinn með það? Við þurfum að koma þessum lögum á dagskrá. Ég hafði reyndar gagnrýnt ýmislegt í þeim eins og það að hér yrði enn gert ráð fyrir þeirri meginreglu sem hefur því miður verið að fjáraukalög væru einhver sannindi og menn gætu endalaust lofað einhverjum fjármunum.

Við í hv. fjárlaganefnd fórum til Svíþjóðar og þar var bent á að þegar Svíar lentu í sambærilegri kreppu og Íslendingar höfðu allar fjárheimildir verið teknar af ráðherrum. Þar var kallað eftir ábyrgð. Hér er verið að tala um tannlækningar barna. Ef þingmaður í Svíþjóð hefði lagt fram slíkt frumvarp eða slíka tillögu órædda á þingi án þess að tilgreina hvar hann (Forseti hringir.) ætlaði að sækja tekjurnar hefði hann verið gagnrýndur harðlega í umræðunni, það yrði talið ábyrgðarlaust. Það er þannig umræða (Forseti hringir.) sem við verðum að koma á á Íslandi, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu.