142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Öll þekkjum við að erfitt er að horfa upp á að biðlistar í heilbrigðisþjónustu, grundvallarþjónustu fyrir börn hvar sem er á Íslandi, eru of langir. Það verður að leita allra leiða til að taka á því vandamáli. Við ræddum í fyrra málefni barna með tal- og málþroskaraskanir. Við höfum reynt að koma því máli í farveg. Það varðar börn alls staðar á landinu. Það er erfitt að horfa upp á að veitum ekki nægilega góða þjónustu.

Mig langar þess vegna að hvetja hv. þingmenn sem hér sitja til að einbeita sér að því að standa saman um að reyna að finna leiðir til að taka á vandanum og styðja hæstv. ráðherra heilbrigðismála til að leysa þessi mál, finna leiðir sem gerlegt er að fara þannig að við getum boðið upp á þá þjónustu sem okkur langar til að veita og er ásættanleg.

Það er erfitt að vita af því að þjónustan á landsbyggðinni sé að dragast saman og sé jafnvel ekki fyrir hendi. Auðvitað vill enginn hér inni, hvort sem hann er þingmaður landsbyggðarinnar eða höfuðborgarsvæðisins, stilla hlutunum þannig upp að fólki sé nauðugur einn sá kostur að færa sig yfir á suðvesturhornið ef á þarf að halda þegar þjónusta er ekki í boði. Ég hvet því þingheim til að standa saman um að leita lausna og aðstoða hæstv. ráðherra í þessu verkefni.