142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi verið fjallað um þær kannanir sem gerðar hafa verið og þær spurningar sem hafa verið lagðar fyrir erlenda ferðamenn. Ferðamenn hafa verið spurðir: Hvað er það sem er svona eftirsóknarvert við Ísland og hvað réði því að þú komst hingað? Ég spyr hvort ekki hafi verið farið yfir þessar spurningar og svör ferðamannanna.

Þeir segjast langflestir vera komnir til Íslands til að njóta náttúrunnar. Enginn þeirra nefndi verð á hótelþjónustu enda sýnir það sig að rétt um 10% af heildarkostnaði erlendra ferðamanna hingað til lands eru vegna gistingar. Ef við hækkuðum virðisaukaskattinn úr 7% í 14% mundi heildarkostnaður erlendra ferðamanna í heimsókn til Íslands hækka um rétt 1%. En meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar virðast telja að það gæti orðið til þess að ferðamönnum mundi fækka.

Ég vil líka spyrja hvort ekki hafi verið farið vel yfir bæði greiningar sem greinin sjálf lét gera og KPMG gerði fyrir greinina sjálfa og síðan greiningarnar sem Hagfræðistofnun Háskólans gerði fyrir fjármálaráðuneytið. Í þeim greiningum kemur fram að jafnvel þó að virðisaukaskatturinn hefði hækkað upp í 25,5% mundi ferðamönnum samt halda áfram að fjölga.