142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg og þörf umræða. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs. Tölvuvæðingin og netvæðingin hefur fært okkur mikla möguleika og gífurleg þægindi. Hér er eitt dæmi um það en með þessu tæki er hægt að fylgjast með því hvar ég er staddur. Ég er staddur núna á 2. hæð í Alþingishúsinu í Reykjavík. Og það er einhver sem veit það annar en ég.

Þetta er bylting. Við erum búin að aflétta bankaleynd til þæginda fyrir ríkisskattstjóra, allar bankaupplýsingar fara til ríkisskattstjóra. Af undrun hef ég fylgst með því hvað þróunin er hröð, alla mína ævi. Upplýsingar eru verðmæti, það er þekkt, og það að safna upplýsingum er að skapa verðmæti. Nú hefur komið í ljós að samband augnanna fimm, eins og það er nefnt í þýskum fjölmiðlum — Bandaríkin, Kanada, Bretland, Ástralía og Nýja-Sjáland — er að safna upplýsingum um allan heiminn, um alla þá sem taka þátt í netinu. Þetta er ógurlegur haugur af upplýsingum og menn vita að hverju ég er að leita, í hvaða röð, inni á hvaða heimasíðu ég fer o.s.frv. Það er búið að greina mig og það er búið að greina þig líka.

Af hverju veit ég þetta? Vegna þess að það er uppljóstrari sem kom fram. Hann er að brjóta lög, hann er að brjóta reglur, hann er að brjóta siðareglur starfsemi sinnar o.s.frv. En hann er jafnframt að benda á 71. gr. stjórnarskrárinnar, um friðhelgi einkalífsins. Það er því mjög mikil spurning, og siðferðisleg spurning í mínum huga, hvort hann er skúrkur eða hetja. Og þetta er nokkuð sem við þurfum að ræða mjög vandlega því að þeir sem eru að safna upplýsingunum eru að brjóta 71. gr. stjórnarskrárinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)