142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[13:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er komið til 3. umr. frumvarp um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sem snýr að vali stjórnarmanna. Ég hef ítrekað kallað eftir því að fá skýringu á því hvers vegna í veröldinni það er lagt fram. Af hverju kemur það fram á sumarþingi? Frumvarpið er breyting á lögum sem samþykkt voru fyrir þremur mánuðum, þá með 35 atkvæðum gegn 4 og með samþykki allra stjórnmálaflokka nema Sjálfstæðisflokksins.

Kannski er skýringin á því að þetta frumvarp er lagt fram að nú ætli menn að nota tækifærið, og Framsókn dansar með, og kalla fram breytingar en aðeins á hluta af því frumvarpi sem fór í gegn í vor, þ.e. eingöngu því er varðar stjórnina. Er þá nema von að maður spyrji: Hver er tilgangurinn? Hvers vegna er verið að breyta þessu? Af hverju er verið að fara frá því sem menn lögðu á sig mikla vinnu við að fá í gegn og finna góða lausn á, sem var myndun stjórnar Ríkisútvarpsins? Af hverju velja menn þennan þátt og breyta því til baka þannig að þetta eigi að vera hlutfallskosning á Alþingi? Er von á öðru en að maður reikni með því að þarna sé hreinlega verið að gefa þau skilaboð að hér eigi að vera pólitísk íhlutun í Ríkisútvarpið, að hverfa aftur til eldri tíma eða búa til hættu á því að það hverfi til þess tíma þegar menn drottnuðu og ríktu yfir hlutunum í Ríkisútvarpinu?

Ég verð að viðurkenna að það veldur miklum vonbrigðum að fá þetta frumvarp inn og ég hef tjáð þá skoðun áður. Ég sagði líka frá því að þegar við sáum frumvarpið þá sátum við saman, minnihlutafulltrúarnir í allsherjar- og menntamálanefnd, og horfðum hver á annan og sögðum: Bíddu, hvað erum við að fara að fjalla um? Menn notuðu þar orð eins og asnalegt, ótrúlegt, óþarft, óskiljanlegt, pólitísk valdbeiting og fleiri og fleiri.

Fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, fór ágætlega yfir sögu málsins og rakti með hvaða hætti menn komust að þeirri niðurstöðu að vera með valnefnd, vera með sjö manna stjórn þar sem menn leyfðu menntamálaráðherra á hverjum tíma að skipa stjórnarformanninn, setja inn fulltrúa frá starfsmönnum og setja síðan sérstaka valnefnd sem átti að sjá til þess að skipa hina fimm fulltrúana. Settar voru býsna miklar og ítarlegar reglur um það hvernig skipa ætti þessa fulltrúa, hvaða hæfi þeir ættu að uppfylla o.s.frv.

Ég skil ekki af hverju við fórum ekki bara þá leið, prófuðum hana. Þetta er auðvitað ekki eina leiðin og ef það kemur svo í ljós að við erum ósátt við þessa leið reynum við að finna enn betri leið en ekki að hopa til baka.

Þetta hafa verið vonbrigði. Ég hef ítrekað spurt hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að því: Bíddu, hvað er það sem dregur menn til þess að taka þessa ákvörðun og af hverju er verið að taka sumarþingið undir þessa umræðu? Af hverju tökum við þetta ekki í rólegheitunum ef menn telja ástæðu til að breyta hlutunum og breyta þá í leiðinni hlutverki stjórnarinnar? Auðvitað hangir það saman, skipan í stjórn og hlutverk hennar.

Það eru ýmsar aðrar breytingar. Hugmyndafræðin í lögunum sem samþykkt voru í vor kemur ágætlega fram. Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi árið 2006 og samkvæmt íslenskum lögum varðandi hlutabréf þar sem eigandinn er einn, sem er ríkið, fer fjármálaráðherra með það hlutabréf. Menn breyttu skipulaginu, og er ágætlega gerð grein fyrir því í rökstuðningi með frumvarpinu, væri hægt að tryggja að menntamálaráðherra færi með þetta hlutabréf. Fjölmiðlanefndin sem þá var skipuð var einmitt hugsuð í tengslum við það.

Hvað er það sem menn eru alltaf að glíma við þegar menn fjalla um stjórnun Ríkisútvarpsins og hvernig á að haga stjórnskipulagi fyrir þessa stofnun sem á að vera í almannaþágu? Það er að hindra eða koma í veg fyrir pólitísk áhrif á þá stofnun. Það er að eyða tortryggni gagnvart því að stjórnmálaflokkar, þingmenn eða þeir sem eru við völd á hverjum tíma geti íhlutast um dagskrárefni þessa opinbera fjölmiðils. Þess vegna er það þeim mun óskiljanlegra að ný ríkisstjórn skuli svo gefa þau skilaboð að hún vilji hverfa frá þeim áformum um að búa til armslengd, að koma hlutunum fjær þessum pólitísku fulltrúum, að skipa stjórnina ekki beint, að menn skuli hverfa til baka. Er nema von að maður láti sér detta í hug að skilaboðin séu bara þessi: Nú erum við komin til valda, nú ætlum við að fara að ráða, við ætlum að gera þetta eins og þetta var gert áður. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að fara að stjórna hér og drottna eins og áður.

Rökin sem koma fram í frumvarpinu eru að þetta eigi að vera lýðræðislegra, gagnsærra og skýrari ábyrgð. Menn segja að það sé hlutfallskosning á Alþingi. Það er mjög mikilvægt og við höfum verið að reyna að setja nýja þingmenn inn í það, það eru ekki allir sem fylgjast með hvernig svona kosning fer fram. Þegar hlutfallskosning er þá koma fram tveir listar þar sem meiri hlutann setur sinn lista fram og minni hlutinn sinn lista. Ég hef aldrei á þeim árum frá því að ég kom á þing árið 2007 setið á fundi þar sem menn skoða fulltrúa hver annars og sammælast um hvernig stjórn eigi að vera skipuð í heild. Það er engin heildarsýn heldur kemur hver með sinn fulltrúa og gætir þess vel að þar sé ágætur pólitískur gæðingur í flestum tilfellum og tilnefnir þannig í stjórnina. Síðan sitja menn hér í salnum og fá tilnefningu allir í einu. Ég hef aldrei orðið vitni að því að það hafi verið kallað til baka.

Við erum nýbúin að fara í gegnum það að vera nánast rekin til baka af fundi Evrópuráðsins vegna þess að við vorum eingöngu með karlmenn í þeirri nefnd og brutum þar með lög Evrópuráðsins. En við brutum auðvitað fleiri lög, við brutum íslensk jafnréttislög. Við höfum verið í vandræðum með það í þinginu að skipa málum þannig að við getum tryggt að gætt sé eðlilegs hlutfalls á milli kynjanna og að farið sé að lögum þar. Eina leiðin sem við höfum þar er að menn tilnefni fulltrúa með einhverjum formlegum hætti og að forsætisnefndin fái þær tilnefningar og geti skoðað heildarmyndina áður en til borið fyrir þingið. Það er engin hefð fyrir því, og núna á þessu þingi var þetta sérstaklega óhönduglegt vegna þess að það lá ekkert fyrir hverjir ættu fulltrúa í þessum nefndum bara daginn áður en átti að fara að kjósa í þær.

Þannig hefur það líka verið með stjórnir fyrirtækja sem tilnefndar eru af Alþingi eða sem sagt þegar er hlutfallskosning, þá stöndum við bara frammi fyrir því að birtur er sjö manna listi og þingið samþykkir hann.

Ef mönnum væri einhver alvara með það sem kom fram hjá hæstv. menntamálaráðherra, að þetta ætti að vera þannig að 63 þingmenn, sem hafa auðvitað gríðarlega breiða skírskotun, góða aldursbreidd, þokkalega kynjaskiptingu, að á Alþingi sé þversnið af þjóðfélaginu, hefði mátt gera þetta með þeim hætti að Alþingi sem 63 manna hópur væri valnefnd sem fengi þá tilnefningarnar, færi yfir hæfi manna og síðan sammæltust menn um það að þetta væri sú tillaga sem Alþingi í heild gerði um stjórnarmenn Ríkisútvarpsins. Eða fæli allsherjar- og menntamálanefnd, sem átti að skipa þrjá inn í valnefndina, að þeir mundu gera þetta með svipuðum hætti. Nei, það er ekki nægjanlegt lýðræði, það er ekki nógu gagnsætt, það tryggir ekki næga ábyrgð. Við ætlum að deila hér og drottna með gamla hættinum.

Þá veltir maður líka fyrir sér: Hvert stefna menn? Við vitum það vel að mikil tortryggni hefur einmitt verið í samfélaginu á undanförnum árum gagnvart áhrifum pólitíkusa á einstök fyrirtæki og hvernig menn fara með vald sitt, sem þegið er frá almenningi, við stjórn á almannastofnunum. Það hefur verið alveg klár stefna undanfarin ár og hjá síðustu ríkisstjórn að reyna að auka armslengdina, þ.e. að færa framkvæmdastjórn einstakra stofnana og ríkisstofnana og annað frá pólitíska valdinu. Hér er horfið til baka. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við það.

Menn búa við það í öðrum fjölmiðlum að þar eru ákveðnir eigendur sem hafa ákveðin völd og þeir stjórna þar með upplýsingagjöfinni. Ég hefur sjálfur harmað það. Við vorum hér áður með pólitísk blöð þar sem stjórnmálaflokkar ráku ákveðin blöð. Menn hafa horfið frá því, fjölmiðlaflóran hefur náttúrlega breyst. Menn toguðust á um það á sínum tíma þegar menn glímdu við fjölmiðlalögin og nýir fjölmiðlar komu inn á markaðinn, þá átti að setja ýmsar reglur. En við höfum búið við það að Morgunblaðið hafi verið með 70–80% af markaðnum í fjöldamörg ár. Sá fjölmiðill er nú kominn í einkaeigu, hann er eign ákveðinna fyrirtækja sem gæta ákveðinna hagsmuna, berst gegn því að breytingar verði á kvótakerfinu, blaðið hefur það bara sem stefnu og berst gegn aðild að ESB. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að ritstjórn einhvers blaðs hafi opinbera stefnu, hún þarf bara að vera skýrari. Eins þegar kemur að kosningum þyrftu menn að vera með breska fyrirkomulagið og tilkynntu þá hvern þeir styddu.

Þarna er verið að stýra upplýsingum með ákveðnum hætti. Menn hafa ásakað Baugsveldið um að hafa gert þetta með svipuðum hætti og gera það enn. En hvað ætlum við að gera við Ríkisútvarpið? Ætlum við ekki að reyna að hjálpa því að vera laust við grunsemdir um slíkar tengingar? Ég ætla rétt að vona að við berum gæfu til þess fljótlega að snúa af þeirri braut sem hér er boðuð af nýrri ríkisstjórn; að breyta um stefnu og fara í öfuga átt.

Við áttum um það orðaskipti í gær hvort hér væri komin ný hægri stjórn og hvort það væri rétt orð yfir þá stjórn sem nú situr. Það er eitt af því sem hræðir mig hvað mest sem vinstri mann og jafnaðarmann sem vill aukið réttlæti í samfélaginu, sem vill meiri jöfnuð, sem vill forgangsraða þannig að jöfnuðurinn viðhaldist eða aukist. Við höfum fengið rök fyrir því, m.a. er ráðstefna í dag í Háskóla Reykjavíkur þar sem aðilar koma sem sýna fram á það með rannsóknum að samhengi er á milli lífslíkna og jöfnuðar. Því hefur verið haldið fram í mörg ár og auðvitað segir það sig nánast sjálft að þeir sem búa við vond lífsskilyrði, hafa slaka aðkomu að samfélaginu og búa við lakari kjör hafa minni lífslíkur en þeir sem hafa það betra.

Okkur á Íslandi ber skylda til þess að reyna að tryggja að allir hafi jafnar lífslíkur og jafna möguleika. Framvindan á sumarþinginu gefur þessi skilaboð: Hér er búin að vera vinstri stjórn, hér hefur fólk bögglast við að reyna að auka jöfnuð, hér hefur fólk bögglast við að auka jafnrétti. En nú komum við og ætlum að gæta sérhagsmunanna að nýju.

Erum við að fá helmingaskiptin aftur? (Gripið fram í.)— Því að það eru ekki aðrir hér til að horfa á, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason. Ég ætla ekki að eigna þér allt það sem farið hefur miður hér á undanförnum 20 árum og sem endaði með skelfilegu hruni, en það hræðir mann að sjá að fyrstu aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar með mikið pólitískt umboð, þó að hún hafi ekki nema 51% kjósenda á bak við sig, að hún skuli ætla að beita pólitísku valdi, fara í það að forgangsraða í þágu þeirra sem hafa meira. Menn ætla að draga úr sköttum og útgjöldum hjá þeim sem eru einna helst aflögufærir, sem mun þá bitna á þeirri þjónustu sem við veitum. Þeir ráðast á námsmennina — á hvaða hóp þar? Jú, þann hóp sem einhverra hluta vegna þarf lengri tíma til að komast áfram í námi. Það á herða kröfurnar sem þýðir að sá hópur á erfiðara með að komast í gegnum skóla. Í sjálfu sér er allt í lagi að hvetja til þess að menn standi skil á árangri og vinni vel, en þarna er enn eitt dæmið. Það er eiginlega sama hver borið er niður.

Hér koma menn og væla yfir því að það skuli vera komið jafnréttisátak sem skuldbindur nýja ríkisstjórn til að borga einhver hundruð milljóna í það. Það þvælist miklu meira fyrir þeim en að afnema veiðileyfagjald upp á 3,2 milljarða á þessu ári og 6,4 á því næsta. Þar er vandinn. Fyrrverandi ríkisstjórn setti núverandi ríkisstjórn í mikinn vanda með því að forgangsraða svona.

Það ber allt að sama brunni, hér er komin bullandi hægri stjórn sem forgangsraðar í þágu þeirra sem hafa það betra, ríkisstjórn sem ætlar að kljúfa samfélagið með auknum ójöfnuði eins og gerðist fyrir hrun þar sem hann jókst alveg gríðarlega. Okkur hefur tekist að snúa af þeirri braut en nú á að fara að hverfa aftur til baka.

Það er eitt hugtak sem mikið hefur verið notað á undanförnum árum, það er orðið valdefling, sem felur í sér að verið er að berjast fyrir rétti hvers einstaklings til þess að hafa stjórn á eigin lífi og til að fá að njóta réttar síns í samfélaginu. Það var samfélagið sem ég var að vona að við fengjum hér smátt og smátt á Íslandi með aukinni valdeflingu íslenskrar þjóðar og einstaklinga þessa lands. Táknrænt fyrir það er þegar hv. þm. Freyja Haraldsdóttir kom hér í morgun við nýjar aðstæður. Það er sú mynd sem ég hefði viljað sjá.

Hvað erum við að fá í staðinn? Við fáum ekki valdeflingu. Við fáum valdbeitingu.