142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[14:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það dylst engum, við lestur þessarar skýrslu, að Íbúðalánasjóður var orðinn áhættusækin fjármálastofnun frá árinu 2004 sem leiddi til 270 milljarða taps fyrir sjóðinn og þar með skattborgara þessa lands. Félagslegt hlutverk sjóðsins var sett til hliðar og öll stefnumótun var í lágmarki og mikil markaðssókn var í kapphlaupi við einkavæddu bankana. Uppgreiðsluáhætta sjóðsins var gífurleg þegar samkeppni við bankana hófst af fullum þunga haustið 2004. Íbúðalánasjóður stóð samhliða frammi fyrir því að geta ekki greitt upp íbúðabréfin sem sjóðurinn fjármagnaði sig með.

Þrátt fyrir miklar uppgreiðslur hélt Íbúðalánasjóður áfram að fjármagna sig með íbúðabréfum og uppgreiðslur voru meiri en útlán hans árin 2004 og 2006. Það fjármagn sem sjóðurinn sótti sér á markað en hafði ekki þörf fyrir jók gífurlega á vanda hans. Allt ber þetta að sama brunni. Á árunum 2004–2008 fer sjóðurinn í áhættusamar fjárfestingar og tapaði við hrunið miklum fjármunum vegna þeirrar áhættutöku með lausafé sjóðsins. Sjóðurinn slakaði á í lánsskilyrðum og hækkaði lánshlutfall og hætti að gera kröfu um bankaábyrgð við lántöku til byggingaverktaka og leigufélaga í byggingu íbúðarhúsnæðis á markaði.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er litið á þessa ákvörðun þáverandi og núverandi stjórnarflokka sem ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna, mistök sem gerð voru með fullri þekkingu á mögulegum afleiðingum. Skýrslan um Íbúðalánasjóð er líka áfellisdómur um pólitískar ráðningar og hagsmunatengsl við ákvarðanatöku. Við lestur skýrslunnar eru pólitísk fingraför Framsóknarflokksins áberandi og eru til marks um óvönduð vinnubrögð sem ættu að verða Framsóknarflokknum víti til varnaðar í störfum sínum núna í stjórn landsins.

Það er rétt að minnast og rifja upp þau óábyrgu og miklu yfirboð sem Framsóknarflokkurinn fór út í fyrir síðustu kosningar, um niðurfærslu skulda vegna íbúðalána, sem nota bene eiga að stórum hluta rætur sínar að rekja til óábyrgrar útlánastarfsemi, bæði Íbúðalánasjóðs og bankanna á markaði, á árunum 2004–2008, þeirrar kollsteypu sem varð við bankahrunið og hins alvarlega forsendubrests sem fylgdi í kjölfarið fyrir alla lántakendur þessa lands.

Það má lesa út úr þessari skýrslu hvernig stjórnendur Íbúðalánasjóðs misstu algjörlega sjónar á grunnhlutverki sjóðsins, á því að búa landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum í stað áhættusækni á markaði. Fram kemur hjá skýrsluhöfundum að bankakerfið sé í dag fullfært um að sinna öllum almennum lánveitingum og þar með talið fasteignakaupum. Þar er ég alls ekki sammála því að víða á landsbyggðinni lána bankar ekki til fasteignakaupa vegna þess að þeir telja sig ekki geta tekið neina áhættu í veðum í fasteignum þó að það standist langt í frá alltaf skoðun.

Íbúðalánasjóður mun því áfram gegna lykilhlutverki í lánastarfsemi til húsnæðiskaupa á landsbyggðinni og sinna sínu félagslega hlutverki. Það er því mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að móta skýra húsnæðisstefnu og horft verði til þess að tryggja leigjendum öruggt húsnæði og þeim sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda. Einnig verði horft til landsbyggðarinnar og hennar hlutur tryggður í eðlilegri uppbyggingu og endurnýjun á íbúðahúsnæði.

Umrædd skýrsla ber vitni um gífurleg mistök sem valdið hafa samfélaginu miklu fjárhagstjóni. Allir sem hlut eiga að máli og þeir sem gegna ábyrgð í þjóðfélaginu verða að læra af þeim miklu mistökum.